Stéttarfélag Vesturlands

Var stofnað 31. maí 2006 þegar þrjú verkalýðsfélög sameinuðust. Þetta voru Verkalýðsfélag Borgarness, Verkalýðsfélagið Hörður í Hvalfirði og Verkalýðsfélagið Valur í Búðardal.

Innan félagsins starfa fimm deildir: Iðnsveinadeild; deild verslunar- og skrifstofufólks; matvæla-, flutninga- og þjónustudeild; iðnaðar- mannvirkja- og stóriðjudeild og deild starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum.

Stéttarfélag Vesturlands er aðili að eftirtöldum landssamböndum: Starfsgreinasambandi Íslands, Samiðn og LÍV (Landssambandi íslenskra verslunarmanna), auk Alþýðusambands Íslands.

Félagssvæði félagsins er frá botni Hvalfjarðar til botns Gilsfjarðar í vestri fyrir utan norðanvert Snæfellsnes.

Um félögin:

Verkalýsðfélag Borgarness
Félagið var stofnað 22.mars 1931. Árið 1990 sameinuðust Iðnsveinafélag Mýrasýslu og Verkalýðsfélagið og árið 1993 sameinuðust Verslunarmannafélag Borgarness og Verkalýðsfélagið. í framhaldi af þessum sameiningum voru stofnaðar verslunarmannadeild og iðnsveinadeild innan félagsins. Fyrir sameiningu 2006 voru starfandi fimm deildir innan Verkalýðsfélags Borgarness: Deild starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum, Þjónustu, flutnings og mannvirkjadeild, Iðnaðar og matvæladeild, Iðnsveinadeild og Verslunarmannadeild.

Félagssvæðið náði yfir sveitarfélögin í Borgarfjarðarsýslu norðan Skarðsheiðar, Mýrasýslu, Kolbeinsstaðahrepp og Eyja og Miklaholtshrepp. Félagið átti einnig aðild að kjarasamningum við Norðurál.

Verkalýðsfélagið Hörður
Félagið var stofnað 15.maí 1949. Félagið var ekki deildarskipt. Aðal atvinnusvæði félagsins var stóriðjan á Grundartanga og starfsemi henni tengd auk nokkurra annara fyrirtækja, sveitarfélaga og byggðarsamlaga. Í upphafi náði félagssvæðið yfir Hvalfjarðarstardnahrepp en árið 1966 var félagssvæðið stækkað og náði þá yfir fjögur sveitarfélög í Borgarfjarðarsýslu sunnan Skarðsheiðar.

Verkalýðsfélagið Valur
Félagið svar stofnað 23.maí 1937. Innan félagsins var starfrækt deild verslunar og skrifstofufólks auk allra starfsgreina sem rúmast innan Starfsgreinasambands Íslands. Aðalatvinnusvæði félagsins var Búðardalur þar sem var starfrækt öflugt mjólkursamlag og ný-endurgert sauðfjársláturhús. Félagssvæði félagsins var Dalabyggð sem spannar alla Dalasýslu.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei