Reglugerð Orlofssjóðs Stéttarfélags Vesturlands

1. grein – Nafn sjóðsins og heimili

1.1. Sjóðurinn heitir Orlofssjóður Stéttarfélags Vesturlands.
1.2. Sjóðurinn er eign Stéttarfélags Vesturlands. Heimili hans og varnarþing er í Borgarnesi.
1.3. Sjóðfélagar eru þeir félagsmenn sem greitt er af til sjóðsins.

2. grein – Tilgangur sjóðsins

2.1. Tilgangur sjóðsins er að gera sjóðfélögum kleift að njóta orlofs með því að:

 1. Eiga eða leigja orlofshús eða orlofsíbúðir til að leigja sjóðfélögum.
 2. Semja um hagstæð kjör á orlofsferðum og gistingu innan lands og utan.
 3. Standa fyrir orlofsferðum fyrir sjóðfélaga.
 4. Sjóðnum er heimilt að ganga til samstarfs við önnur stéttarfélög í framangreindum tilgangi.
3. grein – Tekjur

3.1. Tekjur sjóðsins eru:

 1. Samningsbundin gjöld atvinnurekenda til sjóðsins.
 2. Leigutekjur af orlofsheimilum.
 3. Vaxtatekjur.
 4. Aðrar tekjur er til falla.
4. grein – Stjórn og rekstur

4.1. Stjórn Orlofssjóðs skal skipuð þremur mönnum. Formaður félagsins er sjálfkjörinn formaður sjóðsins og varaformaður í forföllum hans. Hinir tveir og varamenn þeirra skulu kjörnir til tveggja ára á fyrsta stjórnarfundi félagsins eftir aðalfund. Árið 2006 skal annar kosinn til eins árs svo og annara varamaðurinn.
4.2. Stjórn félagsins annast vörslu sjóðsins.
4.3. Stjórn orlofssjóðs annast rekstur og umsjón eigna.
4.4. Stjórn sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda samkvæmt almennum stjórnsýslureglum.
4.5. Sjóðstjórn setur sér starfsreglur þar á meðal um rétt til úthlutunar á orlofshúsum.
4.6. Allar meiriháttar ákvarðanir um fjármál og eignir sjóðsins skal leggja fyrir stjórn félagsins til samþykktar.

5. grein – Reikningar og endurskoðun

5.1. Halda skal bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum félagsins.
5.2. Iðgjaldagreiðslur skulu skráðar á nafn sjóðfélaga.
5.3. Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram áritaðir af félagslegum skoðunarmönnum og löggiltum endurskoðanda félagsins fyrir aðalfund Starfsgreinafélagsins ?

6. grein – Ávöxtun sjóðsins

6.1. Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:
a) í ríkisskuldabréfum, eða skuldabréfum tryggðum með öruggum fasteignaveðum.

 • Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum.
 • Í bönkum og sparisjóðum.
 • Í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins.
 • Á annan þann hátt sem stjórn félagsins metur tryggan.

6.2. Ávallt skal þess gætt að varsla og ráðstöfun sjóðsins brjóti ekki í bága við markmið hans og verkefni.

7. grein – Afgreiðsla

7.1. Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu félagsins.
7.2. Allan beinan kostnað við rekstur ber sjóðurinn sjálfur.
7.3. Stjórn félagsins ákveður hver hlutur orlofssjóðs skal vera í sameiginlegum kostnaði við skrifstofuhald félagsins.

8. grein – Breytingar á reglugerðinni

8.1. Reglum þessum má breyta á aðalfundi félagsins, enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Til að breytingar nái fram að ganga þurfa þær að vera samþykktar með 2/3 hlutum atkvæða.

Reglugerð þessi samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu í Verkalýðsfélagi Borgarness, í Verkalýðsfélaginu Val og í Verkalýðsfélaginu Herði 17. og 18. maí 2006 og staðfest á stofnfundi Stéttarfélagi Vesturlands 31. maí 2006.

 • Var efni síðunnar hjálplegt?
 • Nei