Ráðningarsamningar

Persónubundnir samningar
Ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, sem þýðir að aðilar geta ekki fengið aðra aðila til að efna skyldur sínar skv. samningnum í sinn stað. Launamaður getur ekki falið öðrum að vinna fyrir sig störf sín og atvinnurekandi getur ekki selt starfsfólk sitt til vinnu hjá öðrum atvinnurekanda. Sérreglur gilda um framsal ráðningarsamninga samkvæmt lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Ráðningarsamningur verður að vera í samræmi við kjarasamning og ákvæði í ráðningarsamningi um lakari rétt launamanns eru ógild samkvæmt 1. gr. laga um starfskjör launafólks nr. 55/1980.

Form ráðningarsamninga
Samningar eru almennt ekki formbundnir samkvæmt íslenskum rétti. Þeir eru jafngildir hvort sem þeir eru munnlegir eða skriflegir. Þessi regla hefur almennt gilt um ráðningarsamninga.

Ráðningarsamningur getur hafa stofnast jafnvel þótt engin orðaskipti hafi átt sér stað milli aðila. Auglýst er eftir fólki til starfa og að þeir sem hug hafa á störfum mæti á tilteknum stað á tilteknum tíma. Þeir sem mæta eru síðan settir til starfa. Þótt ráðningarsamningar séu almennt ekki skriflegir eru nokkrar tegundir þeirra formbundnar með lögum. Einnig hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að fyrirtæki ráði allt sitt starfsfólk með skriflegum samningi.
Að sjálfsögðu verða öll sönnunaratriði mun auðveldari hafi verið gerður skriflegur samningur, jafnvel þótt í honum sé aðeins vitnað í almenna kjarasamninga. Atriði eins og upphaf starfa og það hvort verið sé að semja um einhver afbrigði frá kjarasamningi getur verið nauðsynlegt að sýna fram á síðar. Þótt ráðningarsamningar séu almennt ekki formbundnir kveða kjarasamningar og lög á sviði vinnuréttar oft á um að gerðir séu skriflegir ráðningarsamningar.

Um hvað er fjallað í ráðningarsamningi starfsmanns
Ef ekki er notað staðlað form við gerð skriflegs ráðningarsamnings koma eftirfarandi atriði til skoðunar:

  1. Dagsetning, nöfn aðila, heimilisföng, kennitala.
  2. Menntun, starfsreynsla, áunnin réttindi frá fyrri atvinnurekanda.
  3. Starfsheiti, hæfniskröfur, starfslýsing.
  4. Starfstími, upphaf, lengd, reynslutími, hvort ráðning sé tímabundin.
  5. Vinnutími, hvort vinnutími sé sveigjanlegur, aukahelgidagar, yfirvinna.
  6. Skipunarvald, undir stjórn hvers unnið er, þagnarskylda.
  7. Laun, föst laun, launabreytingar, hvernig yfirvinna er reiknuð, álagstímabil, yfirborgun, hlunnindi, bílapeningar.
  8. Gjalddagi launa og greiðslufyrirkomulag.
  9. Orlof, hvernig með skuli fara á fyrsta ári, ákvörðun um orlof.
  10. Reglur um tilkynningar á veikindum eða öðrum vinnuhindrunum, hvenær þörf er á læknisvottorði.
  11. Lífeyrissjóður og stéttarfélag.
  12. Samningsslit, uppsagnarfrestur, reglur um skriflega uppsögn.
  13. Tilvísun í lög og kjarasamninga.

Hér getur þú nálgast sýnishorn af ráðningarsamningi

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei