Siðareglur Stéttarfélags Vesturlands

  1. Í reglum þessum á „fulltrúi Stéttarfélags Vesturlands“ (hér eftir SV) við um félaga í stjórnum, nefndum og ráðum félagsins, trúnaðamenn og starfsfólk – svo og aðra þá sem koma fram fyrir hönd félagsins og gegna tímabundnum trúnaði vegna aðildar sinnar að félaginu. Ákvæði siðreglna félagsins eiga við hvort heldur fulltrúi SV þiggur laun fyrir störf sín eða ekki.
  2. Þegar unnið er með persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, í starfsemi SV eða sjóða á vegum félagsins skal með þær upplýsingar farið skv. lögum um persónuvernd þ.m.t. hvað varðar viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda þær gegn óleyfilegum aðgangi, ólöglegri eyðileggingu og gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni. Slíkra upplýsinga skal einungis aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, þær ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi og þess gætt að afla ekki eða óska eftir frekari upplýsingum og gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni. Ef um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, t.d. um heilsuhagi, skal aflað sérstakra, ótvíræðra og skriflegra yfirlýsinga um heimild til vinnslu þeirra.
  3. Fulltrúar SV skulu í störfum sínum fyrir félagið gæta þess að fylgja stefnumálum verkalýðshreyfingarinnar og Stéttarfélags Vesturlands eftir því sem kostur er og sannfæring þeirra leyfir. Fulltrúar SV skulu og vinna að hagsmunamálum félagsmanna í störfum sínum fyrir félagið.
  4. Fulltrúi SV er bundinn af landslögum sem og lögum þeirrar deildar/landssambands sem hann sinnir stjórnarstörfum í, sem og sannfæringu sinni um afstöðu til einstakra mála. Honum ber að gegna störfum af alúð og samviskusemi. Um hæfi í einstökum málum fer skv. almennum hæfisreglum stjórnsýslulaga.
  5. Fulltrúi SV sem tilnefndur hefur verið til setu í stjórn annarra samtaka eða félaga af SV skal leitast við að fylgja samþykktum SV og stefnumálum í störfum sínum í viðeigandi stjórn. Komi í ljós að sannfæring viðkomandi fulltrúa fer ekki saman við stefnumál eða samþykktir félagsins skal viðkomandi gera formanni SV grein fyrir afstöðu sinni.
  6. Fullrúum SV ber að gæta þagnarskyldu um það sem þeir kunna að verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst áfram eftir að látið er af störfum.
  7. Fulltrúum SV er óheimilt að birta eða dreifa skjölum sem varðveitt eru í vinnuumhverfi starfsfólks og stjórnar - enda sé um ófrágengin vinnuskjöl að ræða. Skjöl sem hafa verið afgreidd af aðalstjórn eða viðeigandi stjórn eða nefnd og ekki eru merkt sérstaklega sem “trúnaðarmál” er heimilt að birta opinberlega. Fundargerðir SV er heimilt að birta opinberlega.
  8. Fulltrúum SV er óheimilt að þiggja boðsferðir af fyrirtækjum er SV hefur kjarasamninga við og / eða kaupir vöru eða þjónustu af, innanlands sem utan, hvort sem um er að ræða skemmtiferðir, svo sem veiðiferðir og golfferðir, eða kynnisferðir vegna einstakra fyrirtækja eða viðskiptakosta.
  9. Þrátt fyrir ákvæði í grein 8 er fulltrúa SV heimilt að fara ferðir sem talið er að hafi upplýsingagildi fyrir félagið eða gera þá hæfari til að sinna hlutverki sínu. Í slíkum tilvikum skal metið af yfirmanni eða stjórn eftir atvikum hvort svo sé, enda greiði félagið sjálft kostnað við ferðina. Í þeim tilvikum þegar um er að ræða ferðir sem standa fulltrúa SV til boða á vegum fyrirtækis sem hann starfar hjá og öðrum starfsmönnum stendur einnig til boða, gildir ofangreind regla ekki.
  10. Fulltrúum SV er óheimilt að þiggja eða sækjast eftir gjöfum eða fjármunum frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra. Undanteknar eru jóla- og afmæliskveðjur, sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan marka sem teljast algeng í slíkum tilvikum skv. nánari reglum stjórnar eða um er að ræða persónuleg tengsl sem ekki verða rakin til viðskipta við félagið.
  11. Fulltrúar SV er hafa áhrif á hvert félagið beinir viðskiptum sínum er óheimilt að hafa milligöngu um viðskipti við aðila er líta má á sem tengdan þeim sjálfum. Með tengdum aðila er átt við fyrirtæki í eigu þeirra sjálfra, maka eða barna og tengdabarna og/eða annarra náinna skyldmenna. Ennfremur eigi viðkomandi fulltrúi 20% eða meira af hlutafé fyrirtækis telst það tengdur aðili.
  12. Formaður SV skal gæta þess að þegar stjórnarmenn eða starfsmenn félagsins eiga stórafmæli, séu þeim færðar gjafir í nafni félagsins. Verðmæti þeirra skal vera stillt í hóf, og miða t.d. við góða bók eða hóflega máltíð, allt eftir því hvað hæfa þykir hverju sinni.
  13. Fulltrúum SV sem eru félagar í óskyldum félagasamtökum er óheimilt að beita sér fyrir því að SV veiti viðkomandi félagasamtökum fjárstuðning eða beini viðskiptum sínum sérstaklega til viðkomandi félags. Ákvæði þetta gildir um hvers kyns fjársafnanir og samskot.
  14. Reglum þessum má breyta á fundi trúnaðarráðs, enda hafi þess verið getið í fundarboði og breytingartillaga send til trúnaðarráðsmanna eigi síðar en með fundarboði.

Breyting var gerð á 14. gr. Siðareglna Stéttarfélags Vesturlands á aðalfundi félagsins 14. júní 2016, bráðabyrgðaákvæði feld út og kosin siðanefnd.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei