Þann 16.október skrifuðu skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar og formaður Stéttarfélags Vesturlands, fyrir hönd sjúkrasjóðs félagsins, undir samkomulag um stuðning við nemendur sem stunda nám í MB í formi endurgreiðslu á sálfræðiþjónustu.
Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands hefur styrkt nemendur MB með þessum hætti síðustu tvö skólaár en að þessu sinni var gerður samningur til tveggja ára og er hugsaður sem forvörn gegn brottfalli nemenda úr skóla.
Gegn tilvísun frá Námsráðgjafa MB getur hver nemandi fengið endurgreiðslu eða styrk fyrir allt að fjórum sálfræðitímum á skólaári. Menntaskóli Borgarfjarðar greiðir fyrsta tímann en Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands næstu þrjá tíma að hámarki. MB sér um að endurgreiða nemenda eða greiða sálfræðingi eftir því sem við á.