Greiðslur dagpeninga úr Sjúkrasjóði Stéttarfélags Vesturlands hafa aukist milli áranna 2022 og 2023 um tæpar 11 millj. króna. Styrkir eru um 1200 þúsund krónum hærri. Samtals hafa verið greiddir dagpeningar og styrkir úr sjóðnum árið 2023 að upphæð 57,3 milljónir, sem er aukning um 11,8 rúmar milljónir.
Alls fengu 40 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga á árinu 2023 í 3043 daga. Vegna eigin veikinda fengu 37 félagsmenn greidda dagpeninga en 3 vegna veikinda barna eða maka.
Styrkir sem greiddir voru á liðnu ári úr Sjúkrasjóði voru 570 og var það 43 styrkjum meira en á árinu 2022. Sérstaklega er ánægjulegt að fæðingarstyrkjum er að fjölga, eins er aukning á heilsuræktarstyrkjum og endurgreiðslu vegna ráðgjafaviðtala. Við sjáum mikla aukningu á endurgreiðslu vegna tannviðgerða sem hefur þrefaldast frá því að byrjað var að taka þátt í þeim kostnaði. Árið 2019 voru 33 félagsmenn styrktir vegna tannviðgerða en 100 árið 2023. Sama má segja um ráðgjafaviðtölin sem fara úr 19 endurgreiðslum árið 2019 í 61 árið 2023.
Rétt er að geta þess að á bak við þennan fjölda eru ekki 570 félagsmenn, því margir sækja um nokkra mismunandi styrki.
Reglugerð sjúkrasjóðsins var breytt árið 2019 þannig að undir 5. gr. hennar um ýmiskonar heilbrigðisþjónustu voru felldar nokkrar tegundir styrkja, þar á meðal sjúkraþjálfun, tannviðgerðir og krabbameinsrannsóknir. Greiðslum vegna 5. gr. hefur fjölgað úr 167 2019 í 220 vegna ársins 2023.
Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands stendur nokkuð vel þrátt fyrir auknar greiðslur og var ákveðið að rýmka nokkuð greiðslur út sjóðnum vegna ársins 2024. Til að eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum þarf félagsmaður að hafa verið greiðandi til félagsins í 6 mánuði og í 12 mánuði í einstaka tilfellum. Ef félagsmaður var áður með réttindi í öðru ASÍ félagi þá getur hann flutt réttindin með sér á nýja félagssvæðið. Eins hefur verið samið um það milli ASÍ og BSRB að réttindi vegna dagpeninga og dánarbóta flytjast á milli þessara hópa. Heildarsamtökin eru í viðræðum um að það sama muni gilda um hina ýmsu styrki og vonast er til að samkomulag um það náist fyrir árslok 2024.