Ríkissáttasemjari, Magnús Pétursson, lagði fram tillögu til að sætta deilu milli Stéttarfélags Vesturlands og Samtaka atvinnulífsins eftir að kjarasamningurinn sem undirritaður var 21. desember sl. var felldur í atkvæðagreiðslu í almennri deild félagsins. Tillagan fer hér á eftir:
Sáttatillaga frá 20. febrúar 2014
Til eftirtalinna samningsaðila:
Flóabandalagsins, þ.e. Eflingar, Hlífar og VSFK, Einingar-Iðju, Bárunnar stéttarfélags, Öldunnar stéttarfélags, Stéttarfélagsins Samstöðu, Stéttarfélags Vesturlands, Drífanda stéttarfélags, Verkalýðsfélags Snæfellinga, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Verslunarmannafélags Suðurnesja, VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samtaka atvinnulífsins.
Sáttatillaga ríkissáttasemjara er að gerður verði eftirfarandi viðauki við kjarasamninga milli hlutaðeigandi stéttarfélags og SA sem undirritaðir voru 21. desember 2013 en hafnað í atkvæðagreiðslu:
Viðauki
Við kjarasamning Stéttarfélags Vesturlands og Samtaka atvinnulífsins frá 21. desember 2013
1.gr.
Inngangur
Kjarasamningur aðila frá 21. desember 2013 tekur gildi 1. febrúar 2014 með þeim breytingum sem kveður á um í 2. og 3. gr. hér að neðan.
2.gr.
Kaupliðir
Launabreytingar sem kveðið er á um í kjarasamningi frá 21. desember gilda frá og með 1. febrúar 2014.
Eingreiðsla
Í stað launabreytingar frá 1. janúar 2014 greiðist sérstök eingreiðsla, kr. 14.600 m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014.
Desember- og orlofsuppbót.
Desember- og orlofsuppbætur hækka samtals um kr. 32.300 frá síðast gildandi kjarasamningi. Desemberuppbót miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 73.600.
Orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 39.500.
3.gr.
Gildistími
Kjarasamningurinn gildir til 28. febrúar 2015 og fellur þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar.
4.gr.
Atkvæðagreiðsla
Niðurstaða atkvæðagreiðslu skal tilkynna viðsemjendum og ríkissáttasemjara fyrir kl. 12.00 7. mars 2014.
Reykjavík, 20. febrúar 2014
Fundur hefur verið boðaður í Trúnaðarráði Stéttarfélags Vesturlands nk. þriðjudag kl. 20:00 í Alþýðuhúsinu Sæunnargötu 2a, í Borgarnesi þar sem sáttatillagan verður kynnt og ákvörðun verður tekin um fyrirkomulag á afgreiðslu á henni.