Ný könnun – langflestir vilja samræmda launastefnu

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Ný skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir ASÍ sýnir að 94% þeirra sem taka afstöðu vilja sambærilegar launahækkanir fyrir alla í komandi kjarasamningum á móti 6% sem vilja meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinum. Þá vilja 48% að verkalýðshreyfingin leggi mesta áherslu á að tryggja kaupmátt launa í yfirstandandi kjaraviðræðum en 24% vilja að áherslan sé að tryggja atvinnuöryggi.


Í báðum spurningum voru þeir aðeins spurðir sem eiga aðild að stéttarfélögum. Fyrri spurningin hljóðaði þannig:


Nú standa yfir viðræður um nýja kjarasamninga. Hvort ertu hlynntari því að verkalýðshreyfingin leggi áherslu á sambærilegar launahækkanir fyrir alla, eða meiri launahækkanir til þeirra sem starfa í útflutningsgreinunum, sem njóta nú góðs af gengi krónunnar? 94% sögðust vilja sambærilegar launahækkanir fyrir alla en 6% vildu að þeir fái meiri launahækkanir sem starfa í útflutningsgreinunum.


Seinni spurningin hljóðaði þannig: Hvað viltu að verkalýðshreyfingin leggi mesta áherslu á í yfirstandandi kjaraviðræðum? 19% vildu beinar launahækkanir, 48% að kaupmáttur yrði tryggður og 24% að áherslan væri á atvinnuöryggi.


Niðurstöðurnar má skoða betur hér.


Félagsvísindastofnun Háskólans gerði skoðanakönnunina fyrir Alþýðusamband Íslands. Úrtakið var 1200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá, 18 ára og eldri. Könnunin var gerð í gegnum síma dagana 5.-16. febrúar 2011. Nettósvarhlutfall var 62,9%.


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei