Grétar Þorsteinsson ávarpaði Borgnesinga 1. maí

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

1. maí 2010, Borgarnes
Ávarp Grétars Þorsteinssonar, fyrrverandi forseta ASÍ


Félagar
Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur Borgfirðinga á 1. maí. Ég átti sannast sagna ekki von á því að fá tækifæri til að flytja 1. maí-ávarp eftir að ég lét af störfum sem forseti ASÍ.


Það er mikill órói í íslensku samfélagi í dag. Það er óvissa í stjórnmálum, efnahagsmálum og atvinnumálum. Það er mikil reiði meðal almennings. Reiði í garð þeirra sem komu okkur í þá stöðu sem við erum í og reiði vegna þess hve hægt gengur að koma hlutunum á hreyfingu aftur.


 


Tíminn frá efnahagshruninu hefur mikið til farið í að bíða. Það hefur verið beðið eftir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, beðið eftir aðgerðum til að rétta við hag heimilanna, beðið eftir að hjól atvinnulífsins færu af stað – beðið eftir Icesave. Og síðast en ekki síst hefur verið beðið eftir uppgjöri vegna þess sem hér gerðist. Þjóðin beið óþreyjufull eftir skýrslu rannsóknanefndar alþingis.


Biðin var vel þess virði. Skýrslan staðfesti flest af því sem hefur legið í loftinu. Hún staðfesti að óprúttnir aðilar höfðu farið um banka og ýmis stór fyrirtæki líkt og ræningjaflokkar hafi farið þar um. Græðgin sem verkalýðshreyfingin varaði við og talaði um fyrir hrun – að réði för, var miklu meiri og verri en nokkurn óraði fyrir. Veruleikinn var nær skáldskap en sjálft leikritið sem sett var á svið af útrásarvíkingum og stjórnmálamönnum.


Það sem stendur þó uppúr í allri umræðunni um skýrsluna er sú staðreynd, að enginn efast um að það sem fram kemur í skýrslunni sé sannleikanum samkvæmt. Nema þá helst þeir sem fjallað er um, ekki síst stjórnmálamennirnir. Þeir hafa sumir stigið fram og sagt að þetta sé frábær skýrsla, nema kaflinn þar sem vikið var að þeirra hlut í þessu öllu. Hann hafi ekki verið réttur. Svona viðbrögð segja ekkert um það vandaða verk sem skýrsluhöfundar hafa skilað af sér. Þau segja aftur á móti heilmikið um þá sem svona tala.


Vissulega skiptir okkur miklu máli að vita hvað gerðist í aðdraganda hrunsins. Það er nauðsynlegt til þess að uppbyggingarstarfið verði á réttum forsendum. Við megum aldrei setja okkur í þessa stöðu aftur.


Þess vegna skiptir svo miklu máli hvernig við vinnum okkur úr stöðunni. Við verðum að gera það í sátt og auðmýkt. Það þarf að byggja upp traust, traust á milli almennings, samtaka, stofnana og fyrirtækja í landinu. Það verður ekki gert á grundvelli þeirra gilda sem voru ráðandi árin fyrir efnahagshrunið.


Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Það eru óneitanlega mikil vonbrigði hvernig sumir aðilar hafa hegðað sér í eftirmálum hrunsins. Það hafa verið mikil vonbrigði hvernig unnið virðist úr fjölmörgum hlutum af skilanefndum bankanna. Það hafa ekki síður verið vonbrigði hvernig stjórnvöld hafa gengið fram í mörgum málum. Leyndin, afneitunin og sömu vinnubrögð og við þekktum fyrir hrunið hafa alltof oft blasað við. Umræðan hefur verið um tap kröfuhafa og að afskrifa ævintýralegar skuldbindingar ævintýrafólks – á kostnað almennings í landinu.
Minna hefur farið fyrir umræðunni um þær skelfilegu afleiðingar og óhamingju sem bankahrunið hefur haft í för með sér fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldna í landinu.


Það hefur stundum verið talað um að allir hafi tekið þátt í brjálæðinu – almenningur hafi tekið fullan þátt og beri því ekki síst ábyrgð á því hvernig fór. Undanfarna daga hefur orðið – hjarðhegðun – verið notað í þessu sambandi og er orðið eitt ofnotaðasta hugtak í íslensku. Vissulega var neyslan hjá mörgum mikil og í mörgum tilvikum alltof mikil – en fólki er í blóð borið að treysta náunganum – meðal annars að treysta bönkunum.


Við erum alin upp við það að fáum væri betur treystandi fyrir peningum en bönkum. Og þegar hringt var úr bönkunum í fólk úti í bæ og boðið gull og grænir skógar – af hverju áttum við ekki að treysta því? Núna segja vafalaust margir að þeir hefðu betur ekki gert það. En af hverju gerðu þeir það? Jú – af því að þeir höfðu alltaf treyst sínum bönkum og ekki að ástæðulausu í flestum tilvikum.


Nú hefur þessi staða algerlega snúist við. Núna eru bankarnir og stjórnendur þeirra líklega þeir sem fólk treystir síst. Þess vegna skiptir svo miklu máli að byggja upp traustið sem hefur glatast. Samfélag þar sem allir vantreysta öllum er sjúkt samfélag.


Þetta mun aftur á móti ekki gerast á stuttum tíma. Það er langt ferli að byggja upp að nýju traust. Auglýsingaherferðir um eigið ágæti duga ekki til að snúa við blaðinu. Menn verða að vinna fyrir traustinu að nýju. Það verður ekki gert nema af mikilli auðmýkt.


En hverjir sitja í súpunni eftir græðgisruglið? Það er ekki síst unga fólkið sem hafði næstum ótakmarkaðan aðgang að lánsfé frá bönkunum – sem það treysti. Það eru þeir sem hafa misst vinnuna en sitja eftir með enn meiri skuldbindingar en þeir höfðu meðan þeir voru ennþá í vinnu. Það eru þeir sem hafa framfæri sitt af lífeyri frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun – og fleiri sem standa höllum fæti.


Sumt af aðgerðum stjórnvalda í málefnum þessa fólks er ekki til eftirbreytni og það hefur beinlínis aukið vandann. Við hljótum að gera kröfu um að stjórn sem kallar sig velferðarstjórn tryggi hag þessa fólks umfram aðra við þessar erfiðu aðstæður.


Ég nefndi stöðu þeirra sem hafa framfæri sitt af lífeyri. Það fólk hefur lagt hluta af launum sínum til hliðar í lífeyrissjóði, en þar er verið að skerða réttindi. Það eru dapurlegar fréttirnar sem við heyrum dag eftir dag um skerðingar á lífeyri úr almennu lífeyrissjóðunum. Ég ætla ekki að gera lítið úr ábyrgð þeirra sem hafa stjórnað þessum sjóðum. Þeir hafa í einhverjum tilvikum ekki staðið sig sem skyldi. Þeir hefðu mátt vanda sig meira. En það breytir ekki því, að áfallið sem þjóðin varð fyrir – þar með talið lífeyrissjóðirnir haustið 2008 – var svo alvarlegt að það voru sett neyðarlög í landinu – hvorki meira né minna.


Það er því algerlega óásættanlegt að sjóðfélagarnir einir verði látnir bera skaðann, á sama tíma og þeir bera skaðann af lakari afkomu opinberu lífeyrissjóðanna í gegnum skattana. Hafi einhvern tíma verið rétti tíminn til að skoða stöðu lífeyrissjóðanna í landinu heildstætt – þá er það núna.
Félagar
Mér hefur orðið tíðrætt um traustið – að bankar, stórfyrirtæki, svokallaðir útrásarvíkingar og stjórnmálamenn hafi brugðist. Það má samt ekki gleyma því að hið opinbera eftirlitskerfi, sem er mótað af stjórnmálamönnunum, brást líka. Það kemur æ betur í ljós hversu vanmáttugt þetta kerfi var, löggjöfin sem það studdist við óburðug. Ábyrgð stjórnvalda er því mikil, þótt hún afsaki engan veginn megingerendurna – stærstu hluthafa bankanna og stjórnendur.


Framundan er mikið uppbyggingarstarf. Atvinnuleysið er ein versta hliðarverkun hrunsins og um leið og við byggjum upp traustið, þarf að endurreisa atvinnulífið. Þetta þarf að haldast í hendur.


Stjórnvöld hafa dregið lappirnar varðandi uppbyggingu atvinnulífsins. Vissulega hefur óvissan varðandi Icesave þvælst fyrir, en hún afsakar ekki þetta aðgerðaleysi. Yfirskrift aðgerða dagsins er – Við viljum vinna. Það er ekki út í loftið. Við viljum vinna.
Meðal annars liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir hafa verið tilbúnir til að koma með verulegt fé inn í örugg verkefni. Engin niðurstaða liggur enn fyrir hvað það varðar. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að það verður engin endurreisn á Íslandi ef atvinnulífið er jafn laskað og raun ber vitni.


Góðir félagar
Þó svo á móti blási og hafi gert um nokkurt skeið, þá er það auðvitað ekki svo að framundan sé ekkert nema myrkur. Við höfum mörg sóknarfæri. Ísland er auðugt að auðlindum og þjóðin er öflug og samstillt þegar á reynir. Það er hins vegar búið að misbjóða henni og það þarf að endurvinna traustið.


Ég er sannfærður um að það mun okkur takast, ef við tökumst heiðarlega á við það uppgjör sem er nauðsynlegt að fari fram nú þegar rannsóknarskýrslan er komin fram. Því miður virðast þeir sem voru gerendur í aðdraganda hrunsins ekki allir skynja sinn vitjunartíma. Sumir eru forhertir og aðrir eru í afneitun. Þetta fólk stendur í vegi fyrir eðlilegu og heiðarlegu uppgjöri og þarmeð í vegi fyrir því að hægt verði að endurvinna traustið í samfélaginu. – Það er ekki flóknara en það.
Ég hef trú á því að smám saman muni þetta fólk hverfa af vettvangi. Ég vona að það finni þörfina og hvötina hjá sér sjálft – því þá er hálfur sigur unninn. Fólk sem viðurkennir mistök sín og stígur til hliðar í auðmýkt – það á afturkvæmt. Það gildir aftur á móti ekki um fólk sem segir nei og bendir á alla í kringum sig.


Ég ætla ekki að gerast dómari um hverjir eigi að víkja og hverjir ekki. Ég vona samt sem áður að þetta nauðsynlega uppgjör fari fram með ásættanlegum hætti, án þess að hér ríki umsátursástand um heimili einstakra ráðamanna, núverandi eða fyrrverandi. Gildir þá einu hvar í flokki þeir standa.  


Félagar
Ég vil að endingu óska okkur öllum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks. Hann þjappar okkur saman og sýnir okkur hversu mikilvæg samstaðan er, – hvar sem við erum fædd – hvaða tungumál sem við tölum – og – hvar sem við eigum heima.
Gleðilegt sumar.
 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei