Fundur sviðs starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum, sem eru innan SGS hélt fund til undirbúnings kjara-samninga sl. mánudag þar sem farið var yfir efnahagsstöðuna, kjaramálin og væntanlegan flutning á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna, en kjarasamningarnir við ríki og sveitarfélög eru lausir 1. desember n.k.
Á fundinum voru m.a. samþykktar tvær ályktanir, annars vegar um málefni fatlaðra þar sem væntanlegum flutningi á málefnum þeirra yfir til sveitarfélaganna er fagnað. „Fundarmenn telja að það sé skref í rétta átt að færa ábyrgð á þjónustu, sem næst þeim sem þjónustunnar njóta“, segir þar. Hins vegar var ályktað um málefni heilbrigðisþjónustunnar þar sem segir að „félagsmenn SGS eru vel meðvitaðir um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum, sumar tillögurnar verða þó ekki túlkaðar öðru- vísi en að um hrein skemmdarverk sé að ræða. Engu er líkara en ákveðið hafi verið að leggja niður rekstur einstakra stofnana um alla framtíð. Nauðsynlegt er að því sé svarað af fullri hrein-skilni hvort svo sé og heimamenn geti þá brugðist við í samræmi við það.“
Ályktanirnar eru birtar í heild hér á eftir:
Um málefni fatlaðra
„Fundur sviðs starfsmanna hjá ríki og sveitarfélagum, sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands, fagnar væntanlegum flutningi á málefnum fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Fundarmenn telja að það sé skref í rétta átt að færa ábyrgð á þjónustu, sem næst þeim sem þjónustunnar njóta. Ýmsar hættur geta þó falist í þessum breytingum, ekki síst við þær aðstæður sem við búum nú við í íslensku samfélagi um þessar mundir. Varað er við því að þessi flutningur verkefna verði tilefni til þess að skerða þjónustuna umfram það sem hefði verið að óbreyttu. Best væri að skjólstæðingar félagsþjónustunnar upplifðu breytingarnar sem bætta þjónustu. SGS leggur áherslu á að þeim 1500 starfsmönnum sem flytjast yfir til sveitarfélaganna verði tryggt að kjör þeirra rýrni ekki vegna flutningsins. Á sama hátt þarf að gæta þess að koma þessara starfsmanna inn í umhverfi sveitarfélaganna hafi ekki neikvæð áhrif á kjör og réttindi þeirra. starfsmanna sem fyrir eru hjá sveitarfélögunum. Fundurinn hvetur stéttarfélögin innan SGS til að bjóða þá starfsmenn velkomna, sem starfa að málefnum fatlaðra og kjósa að ganga inn í félögin, jafnframt því að tryggja réttindi þeirra.“
Ályktun varðandi heilbrigðisþjónustu
„Fundur sviðs starfsmanna hjá ríki og sveitarfélagum, sem eru innan Starfsgreinasambands Íslands, krefst þess að ráðherrar heilbrigðis- og fjármála, taki til endurskoðunar þær tillögur sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu um stórfelldan niðurskurð til einstakra stofnana. Félagsmenn SGS eru vel meðvitaðir um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum, sumar tillögurnar verða þó ekki túlkaðar öðru vísi en að um hrein skemmdarverk sé að ræða. Engu er líkara en ákveðið hafi verið að leggja niður rekstur einstakra stofnana um alla framtíð. Nauðsynlegt er að því sé svarað af fullri hreinskilni hvort svo sé og heimamenn geti þá brugðist við í samræmi við það. SGS leggur áherslu á að niðurskurður í starfsemi heilbrigðisstofnanna taki mið af því að fólk hættir ekki að verða veikt, þó spara þurfi í ríkisrekstri. Veita þarf góða heilbrigðisþjónustu sem næst þjónustuþeganum og flutningur sjúklinga um langan veg kostar bæði fyrirhöfn og peninga og gæti einnig kostað mannslíf.“
Sjá heimasíðu SGS