Einar G. Pálsson |
Stéttarfélag Vesturlands og Verkalýðsfélag Snæfellinga hafa sameinast um að ráða til sín eftirlitsfulltrúa til að hafa eftirlit með vinnustaðaskírteinum og er hann að hefja störf þessa dagana.
Vinnustaðaskírteinum er ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði en mikilvægt er að öll fyrirtæki sitji við sama borð og fylgi settum reglum.
Hlutverk eftirlitsfulltrúans verður að fylgjast með því að vinnustaðaskírteini hafi verið gefin út í samræmi við lög nr. 42/2010.
Einar G. Pálsson hefur verið ráðinn í starf eftirlitsfulltrúa og mun hann hafa aðsetur á skrifstofu Stéttarfélags Vesturlands í Borgarnesi. Hann mun síðan fara um starfssvæði beggja félaganna á næstunni til að fylgja eftir reglum um útgáfu og notkun skírteinanna.
Lög nr. 42/2010 voru sett í maí á sl. ári og skylda atvinnurekendur í ákveðnum greinum til að útbúa vinnustaðaskírteini fyrir starfsmenn sína sem þeir eiga að bera á sér við vinnu. Þær greinar sem um ræðir eru fyrst um sinn byggingariðnaður og ferðaþjónusta, samið verður í kjarasamningum hverju sinni um mögulega útvíkkun reglnanna. Markmið laganna er að tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum, aðallega að koma í veg fyrir “svarta” vinnu, bótasvik og vinnu útlendinga án atvinnuleyfa. Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands var einnig með lögunum falið að hafa eftirlit með að reglunum væri framfylgt.
Eftirlitið hefur verið virkt á höfuðborgarsvæðinu og víðar en er nú að fara af stað á starfssvæði stéttarfélaganna á Vesturlandi sem nær frá Hvalfjarðarbotni norður í botn Gilsfjarðar að Akranesi undanskildu.