Kjaraviðræður við sveitarfélögin í hörðum hnút

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Þann 9. júní sl. slitnaði upp úr viðræðum SGS og Flóafélaganna við Samninganefnd sambands íslenskra sveitarfélaga. Viðræður hafa staðið með hléum síðan um áramót. Samningarnir runnu út 30. nóvember 2010 og lagði SGS fram kröfur sínar þann 7. desember. Ein af ástæðunum fyrir því að samningar hafa dregist er að beðið var eftir því að samið yrði á almenna vinnumarkaðnum. Það undarlega gerist svo að Samninganefnd sveitarfélaganna lítur svo á að þau séu ekki bundin þeirri stefnu sem mörkuð var á almenna markaðnum. Það að standa vörð um þá sem lökust hafa kjörin sé ekkert sjálfgefið. Önnur markmið séu eftirsóknarverðari, s.s. að endurreisa launatöflu og „bjarga“ starfsmatinu. Þetta er hugmyndafræði sem samninganefndir SGS og Flóans geta ekki sætt sig við og því var deilunni vísað til ríkissáttasemjara. Undirrituð sem er formaður saminganefndar SGS hefur ítrekað óskað eftir fundi með Halldóri Halldórssyni formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga um stöðu mála, en hann hefur vísað á að SNS hafi umboð sveitarfélaganna. Vonandi verður þó hægt að koma þessum fundi á eftir helgi. Stéttarfélag Vesturlands boðaði starfsmenn sveitarfélaganna á starfssvæði sínu til fundar miðvikudaginn 15. júní og þar var eftirfarandi ályktun samþykkt einum rómi:


 


„Félagsmenn Stéttarfélags Vesturlands sem starfa hjá Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit mótmæla harðlega þeirri stefnu Samninganefndar sambands íslenskra sveitarfélaga að ætla að verðfella, störf þeirra sem sinna börnum og öldruðum í sveitarfélögunum. Það getur ekki verið vilji sveitarstjórnarmanna að þeir starfsmenn sveitarfélaganna sem lökust hafa kjörin njóti ekki sambærilegra kjarabóta og aðrir landsmenn.“


 


Á fundinum voru einnig ræddar mögulegar aðgerðir ef SNS kæmi ekki að samningaborðinu og viðurkenndi skyldur sínar að verja kjör þeirra sem lægst hafa launin. Fundarmenn voru sammála um að tími til aðgerða væri í raun ekki fyrr en í haust. Það væri þó ljóst að krafan væri skýr að launahækkanir til þessa hóps ættu ekki að hafa annað upphaf, inntak eða endi en kjarabætur til annarra launamanna, þar var t.d. vísað til samninga við ríkið fh. fjármálaráðherra. Á fundinum kom fram fullur stuðningur við þá stefnu sem samninganefnd SGS hefur haft uppi í málinu.


 


Signý Jóhannesdóttir


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei