Ályktun stjórnar Stéttarfélags Vesturlands frá 15.12.’11

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Stjórn Stéttarfélags Vesturlands lýsir eftir efndum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur á loforðum um að verja velferðina í landinu. Þess er krafist að oddvitar ríkisstjórnarinnar standi við gerða samninga við verkalýðshreyfinguna frá því í vor. Ein meginforsenda þeirra kjarasamninga sem undirritaðir voru 5. maí 2011 eru loforð um aðgerðir ríkissjóðs til að bæta kjör atvinnulausra, aldraðra og öryrkja, þau loforð virðast nú engu skipta. Í stað þess að stíga skref til að efna fyrirheit um jöfnun lífeyrisréttinda sjóðfélaga innan almennu lífeyrissjóðanna við opinbera starfsmenn, er ráðist með skattlagningu á almennu lífeyrissjóðina. Þær aðgerðir munu augljóslega breikka enn bilið milli lífeyriskerfanna og auka óleystan vandann.


Stjórn Stéttarfélags Vesturlands telur það vera lán í óláni  að ríkisstjórnin sé að falla frá hugmyndum um að svelta í þrjá mánuði þá sem verið hafa atvinnulausir á fjórða ár. Það er torskilið hvernig aðför af þessu tagi ætti að auðvelda einstaklingum leiðina út á vinnumarkaðinn og að hún komi frá stjórnmálamönnum sem kenna sig við velferð er vonlaust að skilja. Vissulega er vandi þessa hóps mikill og því hafa aðilar vinnumarkaðarins unnið ötullega að úrræðum fyrir langtíma atvinnulausa. Þeirri vinnu þarf að halda áfram og finna atvinnulausum störf í stað þess að senda þá á framfærslu sveitarfélaganna. Eftir stendur loforð um að hækka upphæð atvinnuleysisbóta með hliðstæðum hætti og launataxta sem  grunur leikur á að stjórnvöld hyggist ekki efna.


Stjórn Stéttarfélags Vesturlands mótmælir harðlega áformum ríkisstjórnarinnar að ætla að fella niður skattaafslátt þeirra sem leggja í séreignasparnað umfram 2% af tekjum sínum. Það er ótrúlegt að stjórnvöld skuli með þessum hætti  hvetja almenning til að draga úr sparnaði,  á  meðan þeir sem komið hafa ár sinni betur fyrir borð með samningum um meiri viðbótarframlög frá  atvinnurekenda halda sínu. Þetta er enn eitt dæmið um aðför þessarar ríkisstjórnar að almennu launafólki í landinu. Nú er mál að linni, ella verður að leita leiða til að koma ríkisstjórninni frá hið snarasta.


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei