Fundað um forsendur kjarasamninga á næstunni

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Formenn félaga innan ASÍ komu saman til fundar fimmtudaginn 5. janúar til að ræða forsendur kjarasamninga en fyrri endurskoðun kjarasamninganna á að vera lokið 20. janúar. Efnahagslegar forsendur standast ágætlega en þegar kemur að loforðum ríkisstjórnarinnar sem sett voru fram í sérstakri yfirlýsingu 5. maí í tengslum við gerð kjarasamningana stendur varla steinn yfir steini. Hörð gagnrýni kom fram á stjórnvöld á fundinum.
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ fór yfir stöðu mála nú sléttum átta mánuðum eftir undirritun kjarasamninganna. Í máli hans kom fram að meginforsenda samninganna hefur staðist, þ.e. kaupmáttur hefur aukist. Há verðbólga er hins vegar áhyggjuefni eins og lítil styrking krónunnar. Spár gera þó ráð fyrir að verðbólga lækki hratt með vorinu. Það kom hins vegar fram í máli Gylfa að sérstakt áhyggjuefni væri það sem snýr að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var gerð í tengslum við kjarasamningana. Þar hallar verulega á stjórnvöld og vissulega tilefni til að segja upp kjarasamningum að mati forseta ASÍ. Ber þar hæst svik um að hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verði í takt við launahækkanir 1. febrúar nk. og skattlagningu á lífeyrissjóði á almennum markaði sem þýðir að óbreyttu skerðingu lífeyris félagsmanna ASÍ.
Það er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að fara í viðræður við ríkisstjórnina á næstu tveimur vikum og fá skýr svör við ýmsum spurningum. Í ræðum allra þeirra sem tóku til máls á fundinum kom fram mikil gremja í garð ríkisstjórnarinnar enda hafa menn ekki gleymt svikum hennar í tengslum við Stöðugleikasáttmálann 2009. Að upplifa viðlíka vanefndir og þá, var fundarmönnum mikil vonbrigði.


 
Stéttarfélag Vesturlands mun boða trúnaðarráð félagsins til fundar fimmtudaginn 12. janúar þar sem farið verður yfir þessi mál, trúnaðarmenn á vinnustöðum verða einnig boðaðir á fundinn og hann verður opinn öðrum félagsmönnum sem áhuga hafa á málinu. Ákveðið hefur verið að Starfsgreinasamband Íslands haldi formannafund þann 18. janúar og síðan verði annar formannafundur ASÍ þann 19. janúar.
 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei