Þeim fjölgar sem leggjast gegn uppsögn samninga

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Þessa dagana berast fréttir af fundarhöldum samninganefnda landssambanda og einstakra stéttarfélaga sem skrifuðu undir kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins 5. maí 2011. Í samningnum er endurskoðunarákvæði sem miðast við 1. febrúar 2013. Þar eru tilgreindir nokkrir mælikvarðar sem skoða þarf fyrir 21. janúar 2013. Sérstök forsendunefnd metur hvort forsendur standast og síðan er það samninganefnd ASÍ sem gengur endanlega frá því hvort lagt er til að samningnum verði sagt upp eða þeir haldi og þá e.t.v. með einhverjum breytingum. Það er orðið ljóst fyrir nokkru að forsendur eru brostnar hvað varðar alla mælikvarða nema einn og sá heldur einungis að meðaltali.  Sá mælikvarði sem stendur mælir kaupmátt og þegar útkoman er skoðuð nánar er það þannig að um 45% félagsmanna innan ASÍ hefur annaðhvort staðið í stað eða tapað kaupmætti.


Samninganefnd ASÍ hefur því verið að leita viðbragða til að bæta inn í samninginn einhverjum þeim ákvæðum sem bætt gætu stöðuna. Það verður að segjast eins og er að atvinnurekendur hafa ekki verið sérlega fúsir að koma til móts við kröfur, eða hugmyndir samninganefndarinnar. Niðurstaðan varð þó sú að gert hefur verið uppkast að samkomulagi um styttingu samningstímans um tvo mánuði þannig að þeir verði lausir í lok nóvember 2013 í stað 31. janúar 2014. Einnig munu atvinnurekendur leggja aukið fé í starfsmenntunarsjóði og samningsaðilar munu sameiginlega vinna af auknum krafti að ýmsum málum sem varða vinnumarkaðinn og eru til bóta fyrir allt samfélagið. Skiptir þar mestu máli að aðilar ætla að reyna að kveða niður verðbólguna og knýja stjórnvöld hverju nafni sem þau nefnast til ábyrgðar á efnahagsumhverfinu. Óstöðugt gengi og mikil verðbólga eru verstu óvinir launafólks.
Þegar samninganefnd ASÍ kemur saman mánudaginn 21. janúar munu liggja fyrir niðurstöður frá öllum þeim félögum og landssamböndum sem aðild eiga að nefndinni. Þá fara nefndarmenn með atkvæði í samræmi við reiknaðan fjölda félagsmanna á bak við hvern samning, sem um ræðir. Niðurstaðan verður því ein fyrir alla þá sem starfa eftir umræddum samningum. Langflestir eru á bak við samninganefndir SGS og Flóans og síðan samninganefnd VR. Nú hafa bæði SGS og Flóinn lagt til að samningum verði ekki sagt upp en ekki verður haldinn fundur hjá VR fyrr en síðdegis á sunnudag.
Verði það niðurstaðan að samningum verði ekki sagt upp, hækka allir launataxtar í kjarasamningum milli viðkomandi stéttarfélaga og SA um kr. 11.000 þann 1. febrúar . Almenn kauphækkun þeirra sem ekki taka laun eftir kauptaxta er 3.25%. Lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu (einnig dagvinnu +vaktaálög eða bónus) þess sem orðinn er 18 ára og hefur verið í fjóra mánuði eða meira hjá sama launagreiðanda hækkar í kr. 204.000
 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei