Aðildarfélög ASÍ hefja í dag átak gegn verðhækkunum undir yfirskriftinni – Vertu á verði. Almenningur og atvinnulífið eru hvött til að taka höndum saman og rjúfa vítahring verðbólgunnar. Átakinu er ætlað að veita fyrirtækjum og stofnunum aðhald í verðlagsmálum og vekja neytendur til aukinnar vitundar.
Sendu ábendingar um verðhækkanir á – www. vertuaverdi.is
Á heimasíðu átaksins www.vertuaverdi.is geta allir sent inn ábendingar um verðhækkanir á fljótlegan og einfaldan hátt. Þannig getum við sameiginlega skapað mikilvægt aðhald, meðvitund og umræðu um verðlagsmál.
Það er hagsmunamál okkar allra að vera á verði og láta vita.
Verðbólgan versti óvinur launafólks
Launafólk er langþreytt á að hóflegar launahækkanir sem samið er um í kjarasamningum séu sífellt notaðar til að réttlæta miklar verðhækkanir og aukna verðbólgu. Við endurskoðun kjarasamninga nú í janúar lögðu fulltrúar launafólks mikla áherslu á að samstaða yrði meðal fyrirtækja og opinberra aðila um að sýna aðhald í verðhækkunum svo nýtilkomnar launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti launafólks.
Allir þurfa nú að taka höndum saman – sýna ábyrgð og stöðva verðhækkanir – það gagnast okkur öllum.