Þetta þarft þú að vita um kaup og kjör

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Ert þú að stíga þín fyrstu skref á vinnumarkaðnum? Þetta er það sem þú þarft nauðsynlega að vita, en ef þig vantar frekari upplýsingar eru stéttarfélögin reiðubúin til þjónustu. Ef eitthvað kemur upp á, ekki hika þá við að hafa samband við félagið þitt.


  • Þú átt að fá LAUN fyrir þá vinnu sem þú vinnur, prufudagar án launa eru ólöglegir!

 • JAFNAÐARKAUP  er ekki til í kjarasamningum, bara dagvinna og yfirvinna eða vaktavinna með álagi!

 • Allir nýir starfsmenn eiga að fá skriflegan RÁÐNINGARSAMNNING þar sem meðal annars þarf að koma fram ráðningartími, starf, uppsagnarfrestur, laun, lengd vinnudags, í hvaða lífeyrissjóðs er greitt og hvaða kjarasamning er stuðst við.

 • Geymdu alla LAUNASEÐLA, á þeim skal sundurliða greiðslur, m.a. í dagvinnu,  yfirvinnu og stórhátíðarvinnu. Einnig skal allur frádráttur sundurliðaður. Orlofslaun skulu skráð á launaseðil ef við á. Einnig skal tiltaka áunnin frítökurétt.

 • KJARASAMNINGAR tryggja lágmarksréttindi og segja hvaða laun og kjör þú átt að vera með að lágmarki. Þú getur samið um meiri rétt en getið er um í samningum. Kjarasamningar geta verið misjafnir.

 • Fyrir hvern mánuð vinnur þú þér inn að lágmarki tvo daga í ORLOFSRÉTT sem oftast eru teknir út í fríi á orlofstíma samkvæmt kjarasamningum eða greiddir út við starfslok.

 • Öllum 16 ára og eldri er skylt að greiða í LÍFEYRISSJÓÐ af öllum launum sínum. Launafólk á að greiða 4% af laununum í sjóðinn en atvinnurekandi greiðir 8% á móti. Þetta á að koma fram á launaseðlinum.

 • Þegar þú hefur unnið í einn mánuð á sama stað öðlast þú rétt til LAUNA Í VEIKINDUM sem samsvarar tveim dögum í mánuði.

 • UPPSAGNARFRESTUR er gagnkvæmur. Það þýðir að þú hefur sama rétt til að segja upp starfi og hefur sömu skyldu til að virða uppsagnarfrestinn og atvinnurekandinn hefur, ef hann segir þér upp. Uppsögn skal vera skrifleg. Uppsagnarfrestur er misjafn eftir kjarasamningum.

 • Ef þú ert í VAKTAVINNU áttu að fá greitt álag á kvöldin og um helgar. Þú átt að fá upplýsingar um hvenær þú átt að vinna með góðum fyrirvara, hvenær vakt hefst og hvenær henni lýkur. Þú átt að fá greitt fyrir vaktina þó þú sért send/ur heim fyrr.

 • FORÐASTU SVARTA VINNU. Því ef þú vinnur svart færðu ekki laun í sumarfríi eða þegar þú veikist eða slasast. Þú ert ekki tryggð/ur ef slys verða og þú verður af öllum réttindum sem fylgja  því að vera launamanneskja. Svört vinna er ólögleg.

 • FORÐASTU VERKTAKAVINNU. Athugaðu að verktakasamningar eru í flestum tilvikum óhagstæðir launafólki. Laun verktaka þurfa að vera allt að 70% hærri en launafólks til þess að verktaki hafi sambærileg réttindi og laun.

 • Þú átt rétt á KAFFITÍMUM fyrir og eftir hádegi á launum, 20 mínútur hver kaffitími.

 • Þú átt rétt á MATARHLÉI í klukkustund sem er þó ekki á launum, ef þú hefur aðgang að mötuneyti eða kaffistofu má stytta hádegishléið í hálftíma.

 • Þú átt rétt á a.m.k. 11 klst. samfelldri HVÍLD á hverjum sólarhring en við mjög sérstakar aðstæður er heimilt að skerða hvíldina og eins vegna vaktavinnu og þá má hvíld fara niður í átta stundir.

 • Almennt áttu rétt á tveimur FRÍDÖGUM í hverri viku en telst annar þeirra vera hvíldardagur og skal sá tengjast beint daglegum hvíldartíma. Þú átt því að fá 35 klst. samfellda hvíld einu sinni í viku
   

Starfsgreinasambandið vill vekja athygli á að á vefsíðu ASÍ-UNG má finna mikið magn gagnlegra upplýsinga sem ætlaðar eru ungu fólki. Síðunni er ætlað að vera upplýsingabrunnur fyrir ungt fólk þar sem fróðleikur um réttindi og skyldur á vinnumarkaði eru settur fram á snarpan og aðgengilegan máta.


 


Frétt af heimasíðu Starfsgreinasambandsins


 

 • Var efni síðunnar hjálplegt?
 • Nei