Krafa um sömu leiðréttingar og aðrir hafa fengið!!!

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Hægt hefur miðað í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga en kjarasamningurinn rann út 1. maí síðast liðinn. Starfsgreinasamband Íslands fer með umboð Stéttarfélags Vesturlands  og 12 annarra félaga innan sambandsins. Formaður Stétt Vest leiðir þann hóp eins og í mörgum fyrri samningum við sveitarfélögin. Líkt og í fyrri samningum hafa Flóafélögin samflot um kjaraviðræður. Það eru þessi 16 SGS félög ásamt aðildarfélögum BSRB sem hafa myndað 6 manna viðræðuhóp sem hitt hefur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga undanfarna tvo mánuði. Í byrjun júní lagði 6 manna nefndin fram tillögu að lausn deilunnar, þá tillögu töldu fulltrúar stéttarfélaganna að samninganefnd sveitarfélaganna hefði samþykkt, en annað kom á daginn.
Það er alveg ljóst að ekki verður við það unað að Sambandið gangi frá hverjum kjarasamningnum á fætur öðrum á allt öðrum nótum en þeir kjarasamningar sem skrifað var undir í upphafi árs en ætli síðan að hrökkva í bakkgír gagnvart þeim starfsmönnum sveitarfélaganna sem lægst hafa launin. Stéttarfélögin hljóta að  gera kröfu um sambærilegar launahækkanir og aðrir viðsemjendur Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa fengið svo sem grunnskólakennarar, BHM og nú síðast leikskólakennarar. Það mun ráðast á næstu dögum hvort samningar nást án átaka. Náist það ekki má búast við að blásið verði til verkfallsaðgerða á komandi hausti.


 


Á meðfylgjandi mynd sem er frá undirritun samninga við sveitarfélögin 30. júní 2011, sjást Björn Snæbjörnsson, Signý Jóhannesdóttir, Sigurður Bessason, Arna Jakobína Björnssdóttir og Inga Birna Tryggvadóttir. Þá höfu SGS félögin, Flóinn og Kjölur náið samstarf við samningagerðina.


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei