Hækkun lægri launa og millitekna

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Megináherslur í útlínum kjarasamnings.


Á samninganefndarfundi Stéttarfélags Vesturlands, þriðjudaginn 26. maí voru kynntar meginlínur draga að nýjum  kjarasamningi sem Flóafélögin, VR, LÍV og Stétt Vest hafa unnið að með SA síðustu daga. Fundað hefur verið stíft alla Hvítasunnuhelgina og á annan í Hvítasunnu var ákveðið að fresta áformuðum verkföllum um fimm daga meðan þess yrði freistað að ljúka gerð kjarasamningsins. Samningsdrögin gera ráð fyrir að gildistíminn verði til loka árs 2018 og er aðaláhersla á hækkun lægri launa og að verja millitekjur. Lágmarkstekjutrygging hækkar um 86 þúsund krónur á samningstímanum og fer í 245 þúsund krónur á mánuði við gildistöku samningsins og kr. 300 þúsund á mánuði frá og með maí 2018.


Launahækkanir


Hvað varðar launahækkanir er stuðst við taxtahækkanir og launaþróunartryggingu árin 2015 og 2016 en taxta- og prósentuhækkanir árin 2017 og 2018.


 


1. maí 2015


·        Launataxtar hækka um kr. 25.000


·        Launaþróunartrygging annarra en þeirra sem taka laun skv. töxtum er 7,2% fyrir laun að upphæð 300 þúsund krónur eða lægri laun en fer svo stiglækkandi með hærri tekjum. Launaþróunartryggingin verður aldrei lægri en 3%.


1. maí 2016


·        Launataxtar hækka um kr. 15.000


·        Launaþróunartrygging er 5,5%. Viðmiðunartímabil er 1. júní 2015 til 30. apríl 2016.


1. maí 2017


·        Launataxtar hækka um 4,5%


·        Almenn hækkun er 3%


1. maí 2018


·        Launataxtar hækka um 3%


·        Almenn hækkun er 2%  m.v. átta mánuði


300 þúsund króna lágmarkstekjutrygging


Lægstu taxtar Flóabandalagsins hækka um 32,5% á samningstímanum. Samið er um árlega hækkun lágmarkstekjutryggingar sem er það lágmark sem greiða verður starfsmönnum. Í dag er lágmarkstekjutrygging 214 þúsund krónur en verður 245 þúsund krónur við undirritun samningsins og endar í kr. 300 þúsund.


Opnunarákvæði ef forsendur kjarasamningsins standast ekki


Samningsaðilar vinna nú að útfærslu ýmissa annarra ákvæða kjarasamningsins en mikilvægast af þeim eru opnunarákvæði ef forsendur kjarasamningsins standast ekki.


Auk þess er unnið að sameiginlegum málum með Alþýðusambandi Íslands og sérkjarasamningum félaganna sem tengjast frágangi aðalkjarasamnings.


Stefnt er að því að ljúka gerð kjarasamninga fyrir vikulok.


 


Samninganefnd Stétt Vest fól formanni félagsins að vinna áfram með samstarfsfélögunum að því að ljúka samningi á þessum nótum.


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei