Stéttarfélag Vesturlands hefur haft opnar skrifstofur á öllu félagssvæðinu. Skrifstofan í Búðardal er að Miðbraut 11, hún hefur verið opin því sem næst hálfsmánaðarlega frá 9:30 til 12:30. Mjög fátítt er að nokkur maður sæki þjónustu á þessum tímum.
Skrifstofan að Innrimel í Hvalfjarðarsveit hefur verið opin hálfan til einn dag í viku. Heimsóknir á þá skrifstofu eru jafn fátíðar og í Búðardal.
Flestir félagsmenn taka upp símtólið þegar þá vantar þjónustu eða senda tölvupóst, nákvæmlega þegar spurningar vakna. Félagið á skrifstofuhúsnæðið í Búðardal en leigir aðstöðuna í Hvalfjarðarsveit. Nokkur umræða hefur verið innan stjórnar félagsins um það hvort það þjóni tilgangi sínum að halda þessum skrifstofum úti. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að loka skrifstofunni í Hvalfjarðarsveit og fækka ferðum í Búðardal. Í stað þess er stefnt á að fara u.þ.b. mánaðarlega í vinnustaðaheimsóknir á þessum svæðum og taka þá jafnvel daginn í þær heimsóknir, auglýsa þær vel og bregðast jafnframt við beiðnum um heimsóknir ef þær koma. Þessar ferðir gætu þá líka verið liður í því að stunda vinnustaðaeftirlit, sem ekki er vanþörf á að stunda á öllu svæðinu.