Skrifstofan lokuð eftir hádegi þriðjudaginn 19. júlí

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Vegna útfarar Agnars Ólafssonar verður skrifstofa Stéttarfélags Vesturlands lokuð frá hádegi þriðjudaginn 19. júlí.


 


Agnar Ólafsson var alla tíð virkur í starfi verkalýðshreyfingarinnar. Hann var 18 ára þegar hann var kosinn í húsbyggingarnefnd Verkalýðsfélags Borgarness. Frá þeim tíma, allt til dauðadags gengdi hann óslitið einhverjum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Agnar var í fjölda ára trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Hann var kosinn í varamaður í stjórn Verkalýðsfélags Borgarness 1975 og í aðalmaður í stjórn félagsins frá 1979, lengst af gjaldkeri, til 2006 þegar Verkalýðsfélag Borgarness sameinaðist tveimur öðrum félögum og til varð Stéttarfélag Vesturlands. Frá þeim tíma, þar til á aðalfundi félagsins í síðasta mánuði átti Agnar sæti ýmist í aðal- eða varastjórn Stéttarfélags Vesturlands.


Agnar var margoft fulltrúi á aðalfundum Lífeyrissjóðs Vesturlands og var um tíma  varamaður í stjórn sjóðsins. Auk þess átti hann sæti í fjölda nefnda á vegum Verkalýðsfélags Borgarness og síðar Stéttarfélags Vesturlands. Þegar Verkalýðsfélag Borgarness ákvað árið 2003 að byggja nýtt hús yfir starfsemi sína átti Agnar sæti í byggingarnefndinni. Alþýðuhúsið við Sæunnargötu var formlega tekið í notkun 20. mars 2004, þá voru liðin 42 ár frá því Agnar var fyrst kjörinn í húsbyggingarnefnd hjá félaginu. Þegar ákveðið var að stækka húsnæði félagsins við Sæunnargötua var Agnar að sjálfsögðu kosinn í byggingarnefndina.  Á aðalfundi Stéttarfélags Vesturlands í síðasta mánuði var Agnar kosinn í kjörstjórn félagsins, hann gengdi því enn trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna þegar hann féll frá.


 


Fyrir öll þessi störf eru Agnari færðar þakkir og samstarfsfólk hans mun minnast hans með virðingu og velvild um ókomin ár.


 


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei