ASÍ mótmælir úrskurði kjararáðs

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Undanfarið ár hefur verið unnið að því að skapa sátt á vinnumarkaði og leggja þannig grunn að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Flestir stjórnmálaleiðtogar á Alþingi Íslendinga hafa tekið undir þá ábyrgu sýn sem felst í breyttum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga og ítrekuðu hana m.a. í stjórnmálaumræðum á nýafstöðnu þingi ASÍ.


Úrskurður kjararáðs sem kynntur var í gær gengur þvert á þessa orðræðu og brýtur alvarlega gegn öllum skynsemisrökum. Það er ekkert réttlæti í því að laun þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna hækki um allt að 75% á þremur árum á sama tíma og almenn laun í landinu hafa hækkað um 29%. Ef horft er til úrskurða kjararáðs á þessu ári er einsýnt að ráðið ætlar sér að koma af stað höfrungahlaupi af áður óþekktri stærðargráðu.


Samninganefnd ASÍ áréttar að kjararáð starfar á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnar. Ef nýkjörið Alþingi vill halda áfram samtali um stöðugleika og sátt á vinnumarkaði verður þingið að koma saman nú þegar og draga þessar hækkanir til baka. Að öðrum kosti verður óstöðugleiki og upplausn á vinnumarkaði í boði Alþingis.


 


Sjá nánar meðfylgjandi minnisblað.


 


 


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei