Stétt Vest og MB endurnýja samning um forvarnir!

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Stéttarfélag Vesturlands og Menntaskóli Borgarfjarðar hafa endurnýjað samkomulag um sálfræðiþjónustu fyrir nemendur skólans. Tilvísun frá náms- og starfsráðgjafa MB veitir nemanda rétt á endurgreiðslu/styrk allt að fjórum sálfræðitímum á skólaárinu 2017-2018. MB greiðir fyrsta tímann og Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands næstu þrjá, að hámarki.
Stjórn Sjúkrasjóðs Stéttarfélags Vesturlands vill koma til móts við ungt fólk sem þarf á stuðningi að halda vegna andlegra og/eða félagslegra erfiðleika. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um vanlíðan ungs fólks, brottfall úr skóla vegna þunglyndis eða annarra erfiðleika sem koma niður á getu ungmenna til að stunda nám og vera virkir þátttakendur í skólalífinu. Heyrst hefur að þetta geti jafnvel verið orsök hárrar tíðni sjálfsvíga, sérstaklega ungra karlmanna. Mörg ungmenni eiga lítinn rétt til endurgreiðslu úr sjúkrasjóði félagsins þar sem þátttaka þeirra á vinnumarkaði með skóla er takmörkuð. Stjórn sjóðsins hafði frumkvæði að því að gera þetta samkomulag sl. haust og það hefur nú verið endurnýjað.
Hafi nemendur áhuga á að nýta sér þessa þjónustu snúa þeir sér til náms- og starfsráðgjafa eða skólameistara eftir atvikum sem hafa umboð til að veita heimild fyrir endurgreiðslu/styrk.
Stjórn sjóðsins fær einungis upplýsingar um fjölda viðtala sem óskað er eftir, engar umsóknir berast til félagsins, þannig að fulls trúnaðar er gætt.


Á meðfylgjandi mynd eru Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands og Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir skólameistari Menntaskóla Borgarfnarðar


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei