Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð hækkar

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði launafólks á almennum vinnumarkaði kom til framkvæmda þann 1. júlí 2018 en þá hækkaði framlagið um 1,5% og er nú orðið 11,5%. Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs nemur því nú samtals 15,5% sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda.


 


Atvinnurekenda greiðir hækkað mótframlag til þess lífeyrissjóðs sem skylduiðgjaldið er greitt til en sjóðfélagar geta nú sjálfir ráðstafað allt að 3,5% af lífeyrisiðgjaldi sínu í tilgreindan séreignarsparnað með samningi við lífeyrissjóð eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu.


 


Hækkun mótframlags atvinnurekenda byggir á kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA frá janúar 2016 en þá var samið um 3,5% hækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð sem tók gildi í þremur áföngum á árunum 2016-2018.


 


Taktu upplýsta ákvörðun um lífeyrisréttindin þín


 


Hver og einn launamaður ákveður sjálfur ráðstöfun hækkunar mótframlagsins, allt að 3,5% af launum, í tilgreinda séreign eða samtryggingu.


 


Viljir þú að hækkun mótframlags atvinnurekanda fari í tilgreinda séreign getur þú haft samband við lífeyrissjóðinn og gengið frá yfirlýsingu þar að lútandi.  Að öðrum kosti rennur hækkunin í samtryggingu og réttindi þín til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris aukast.


 


Þú getur síðan hvenær sem er ákveðið að breyta ráðstöfun hækkunar mótframlags atvinnurekanda, úr samtryggingu í tilgreinda séreign að öllu leyti eða að hluta, eða úr tilgreindri séreign í samtryggingu. Breytingin tekur þá gildi frá þeim tíma, en er ekki afturvirk.


 


Allar frekari upplýsingar má nálgast hjá lífeyrissjóðunum.


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei