Mikil óvissa um framgang viðræðna ASÍ og SA

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Í viðræðum samninganefndar ASÍ við fulltrúa SA í dag var tekist á um tímasetningar launahækkana í gildandi kjarasamningi. SA hafði í síðustu viku lagt til að taxtahækkunum, sem koma áttu til framkvæmda 1. júlí 2009, verði skipt í tvennt þannig að helmingur komi til framkvæmda þá og helmingur þann 1.nóvember 2009 og að ákvæðum svokallaðrar launaþróunartryggingar m.v.3,5% s.l. 12 mánuði frestist að sama skapi til 1. nóvember. Jafnframt lögðu atvinnurekendur til að launahækkunum sem koma ættu til framkvæmda 1. janúar á næsta ári verði frestað til 1. september á því ári.


 


Samninganefnd ASÍ gerði fulltrúum SA grein fyrir því að ekki væri vilji til þess meðal aðildarfélaga að fresta launahækkunum frekar en orðið er og hafnaði þessum tillögum í dag og hélt kröfu sinni um að launahækkanir kæmu til framkvæmda 1. júlí og 1. janúar næstkomandi til streitu. Eftir að hafa tekið sér stuttan umhugsunartíma tilkynnti SA að atvinnurekendur gætu ekki teygt sig frekar í málinu og það kæmi ekki til greina að hækka launataxta um kr. 13.500 eða kr. 17.500 þann 1. júlí n.k.


Framkvæmdastjóri SA taldi að fullyrðingar og vangaveltur að undanförnu um að SA hafi viljað standa við þessar launahækkanir á umsömdum tímasetningum væru úr lausu lofti gripnar og til þess fallnar að skapa óraunhæfar væntingar almennings. Þannig hefðu þær lagt grunn að mjög röngu mati á getu atvinnulífsins til þess að hækka laun yfir höfuð, sérstaklega nú þegar illa gengur að ná tökum á stöðu gengisins og lækkun vaxta.


Í ljósi þessa hafa fulltrúar í samninganefnd ASÍ ákveðið að funda með sínum samninganefndum á þriðjudag eða miðvikudag til þess að fara yfir stöðuna.  Því ríkir mikil óvissa um framgang þessara viðræðna. Ákveðið var að undirnefndir samningsaðila um ríkisfjármál og efnahags- og atvinnumál haldi sinni vinnu áfram eftir hvítasunnuhelgina,  a.m.k. þangað til fyrir liggur hvort endanlega slitni uppúr viðræðum ASÍ og SA.


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei