Stéttarfélag Vesturlands stækkar húsakynni sín

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir


Þrátt fyrir að Alþýðuhúsið sem stendur við Sæunnargötu 2a í Borgarnesi sé ekki gamalt, þá hefur starfsemi félagsins þegar sprengt utan af sér. Ekki eru liðin 5 ár síðan flutt var í húsið, en síðan þá hefur orðið sameining þriggja stéttarfélaga, auk þess sem verkefnum hefur fjölgað.


Segja má að þegar ráðist var í byggingu hússins hafi full mikils aðhalds verið gætt við ákvörðun á stærð hússins og því er nú verið að bæta við 55 fm. Í stað þess að hafa einungis eina lokaða skrifstofu og opið vinnurými fyrir tvo starfsmenn með frekar þröngri afgreiðslu, verða tvær mjög rúmgóðar skrifstofur sem hægt verður að loka, auk einnar minni. Afgreiðslan verður áfram með tveimur starfsstöðvum, en verður mun opnari og rúmbetri. Auk þessa verður svo sett upp loftræsting í salinn. Það hefur viljað brenna við að mörgum nemandanum, eða fundargestinum hefur runnið í brjóst vegna súrefnisskorts í salnum, því stundum gengur bara ekki upp að opna glugga.
Segja má að sú aðstaða sem notuð hefur verið fyrir viðtöl við atvinnulausa hafi alls ekki verið fullnægjandi og með auknu álagi vegna vaxandi atvinnuleysis hafi hin þrönga afgreiðsla verið til vansa. Nú stefnir einnig allt í það að samið verði um að starfsmaður á vegum starfsendurhæfingarsjóðs verði með aðsetur í Alþýðuhúsinu. Auk þessa hefur félagið verið að íhuga að gefa félagsmönnum kost á því að fá viðtöl við lögfræðing á staðnum. Allt þetta kallar á aukið rými þar sem persónubundin þjónusta getur farið fram í góðu næði.


Stéttarfélagið taldi tilvalið að nota þennan tíma þegar skortur er á verklegum framkvæmdum á svæðinu til að ráðast í þessa stækkun. Ákveðið var að leita til heimamanna, sem hafa félagsmenn stéttarfélagsins í vinnu. Þrátt fyrir að flestir verktakar kvarti sáran undan verkefnaskorti þá hefur orðið töf á því að koma verkinu af stað og eins hefur eitt fyrirtæki sagt sig frá verkþætti vegna anna. Forsvarsmenn Stéttarfélags Vesturlands, öfugt við flesta aðra verkkaupa, taka svona fréttum með brosi á vör og gleðjast yfir því að einhverjir hafi nóg að gera. Byggingarnefndin er þrátt fyrir þetta að gera sér vonir um að framkvæmdum verði lokið að innan í byrjun mars 2010, þó þá eigi eftir að ganga frá klæðningu að utan. Það verk bíður að öllum líkindum til vorsins.


Á meðfylgjandi mynd er byggingarstjóri verksins Hannes Heiðarsson við undirbúning.
 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei