Ályktun formannafundar LÍV

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Landsamband íslenskra verzlunarmanna LÍV hélt formannafund sinn á dögunum. Fundurinn sendi frá sér tvær ályktanir þar sem annars vegar eru fordæmdar atlögu SVEIT að réttindum launafólks og hinsvegar þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af áformaðri hækkun leikskólagjalda í Fjarðabyggð.

Framkoma Virðingar og SVEIT er að mati formannafundar LÍV atlaga að réttindum launafólks og markar afturför í kjarabaráttu launafólk. Formannafundur LÍV hvetur launafólk sem og atvinnurekendur til að hafna þessari atlögu og sniðganga þau fyrirtæki sem stuðla að niðurbroti á íslenskum vinnumarkaði, en staðfest er að það eru Rok, Subway, Public House Gastropub, Hard Rock Café og Finnsson Bistro. Samstaða á vinnumarkaði er mikilvæg þegar kemur að því að standa vörð um grundvallarréttindi launafólks og á það að vera sameiginlegt verkefni aðila vinnumarkaðarins að tryggja þau.

Þá fordæmir formannafundurinn atlögu atvinnurekenda innan SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði, að réttindum og kjörum launafólks á Íslandi. SVEIT hefur stofnað gult stéttarfélag sem gengur undir heitinu Virðing og útbúið „kjarasamning“ sem felur í sér beinar kjaraskerðingar fyrir starfsfólk í veitinga- og gistihúsageiranum. Virðing uppfyllir ekki grundvallarkröfur sem gerðar eru til stéttarfélaga, heldur er um að ræða félag sem er stofnað af atvinnurekendum sem síðan semja við sjálfa sig, fremur en að semja við starfsfólk. Þar með flokkast Virðing sem gult stéttarfélag en slík félög grafa undan réttindum og hagsmunum launafólks og ganga í raun erinda atvinnurekenda.

Jafnframt lýsir Formannafundur Landssambands ísl. verzlunarmanna yfir þungum áhyggjum af áformaðri hækkun leikskólagjalda í Fjarðabyggð sem hluti af þeirri víðsjárverðu þróun sem hefur verið farið sífellt í aukana í leikskólamálum á landinu. Hækkunin er sambærileg gjaldskrárhækkunum og þjónustuskerðingu sem hefur þegar tekið gildi í Kópavogi, á Akureyri og víðar. Hún gengur í berhögg við gildandi kjarasamninga sem voru gerðir á þeim grunni að hið opinbera myndi halda aftur af gjaldskrárhækkunum.

Formannafundur LÍV telur það skyldu hins opinbera að tryggja öllum börnum leikskólavist að loknu fæðingarorlofi og að til álita komi að leikskólar flokkist sem lögbundin þjónusta sveitarfélaga. Það er tímabært að binda enda á það fyrirkomulag að varpa álagi og fjárhagslegum byrðum á foreldra ungra barna. Leikskólinn er fyrsta skólastig barna og einnig grundvöllur þess að báðir foreldrar geti verið á vinnumarkaði og þannig séð fjölskyldu sinni farborða. Aukin gjaldtaka markar afturför og býður heim hættu á bakslagi í jafnréttismálum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei