Starfsgreinasamband Íslands og Bændasamtök Íslands hafa um árabil gert með sér kjarasamning um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum. Sá samningur sem nú er í gildi var undirritaður 31. maí 2019 og gildir frá 1. apríl sl. til 31. október 2022. Samninginn má nálgast hér
Vert er að hafa í huga að gildir kjarasamningar hafa lagalegt gildi sem lágmarkslaun í þeim störfum sem þeir fjalla um. Það á jafnt við um þessa samninga eins og aðra kjarasamninga, sem gerðir eru á Íslandi. Margir halda að engir samningar gildi ef starfsfólkið er ekki í stéttarfélagi og menn geti þá hagað greiðslum til verkafólks eftir sínu höfði hvort sem er í landbúnaði eða öðrum störfum. Svo er þó ekki og gilda lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda um þessi störf eins og önnur sem kjarasamningar hafa verið gerðir um.
Hér á eftir er upptalning á nokkrum atriðum sem vert er að hafa í huga:
- Samningurinn milli SGS og Bændasamtakanna gildir einnig fyrir ungmenni frá 14 ára aldri.
- Samningurinn gildir fyrir 40 stunda vinnuviku, virkar 37 klukkustundir og 5 mín.
- Vinna umfram það skal greidd með yfirvinnu, eins og fram kemur í samningnum.
- Gera má skriflegan ráðningarsamning um rofinn dagvinnutíma milli 07:00 og 19:00 þó aldrei meira er virkar 7 klst. og 25. mín á dag. Rof á dagvinnu og frádráttur vegna fæðis og húsnæðis þarf að koma fram í skriflegum ráðningarsamningi sem gerður er innan mánaðar.
- Starfsmaður á rétt á 8 frídögum á mánuði og skylt er að veita 4 frídaga.
- Skýr ákvæði eru í samningnum um aðbúnað ef búið er á staðnum.
- Tölur vegna fæðis og húsnæðis eru hámark, semja má um lægri greiðslu.
- Þó að samið sé um hærri grunnlaun en getið er í kjarasamningum gilda önnur ákvæði samningsins óbreytt.
- Ef unnið er umfram átta stunda vinnudag 5 daga vikunnar er ráðlegt að skrifa hjá sér vinnutímann og æskilegt er að starfsmaðurinn og launagreiðandinn komi sér saman um hvernig sú tímaskrift fer fram. Við bendum félagsmönnum okkar á tímaskráningarappið Klukk.