Í kjarasamningi SGS og SA, sem undirritaður var í mars síðastliðnum, var samið um svokallaðan ræstingarauka fyrir starfsfólk í ræstingum. Þetta þýðir að ræstingarfólk á að hafa fengið sérstaka viðbótargreiðslu frá og með ágústmánuði sem greidd var út um mánaðarmótin ágúst/septmeber.
Ræstingaraukinn skal greiddur út mánaðarlega og reiknast hann í hlutfalli við starfshlutfall, en fyrir fullt starf er hann 19.500 kr. á mánuði. Hafa ber í huga að ræstingaraukinn er ekki hluti af grunnlaunum og myndar þar af leiðandi ekki stofn fyrir yfirvinnu og aðrar álagsgreiðslur. Í reiknivél SGS geta félagsmenn séð hvernig ræstingaraukinn sem og aðrar kjarasamningsbundar hækkanir í kjarasamningi SGS og SA koma til með að líta út miðað við sínar forsendur.
Félagsmenn sem starfa við ræstingar á almennum vinnumarkaði eru hvattir til að skoða launaseðla sína vel og ganga úr skugga um að greiðslan sé að skila sér.