Hér starfar heiðarlegt, vandað og velviljað fólk

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Fúkyrði Sólveigar Önnu

Þann 9. nóv. sl. birti ég grein á Vísi þar sem ég fór yfir stöðuna í verkalýðshreyfingunni og þessa undarlegu hluti sem þá voru nýskeðir á skrifstofu Eflingar og árásir fráfarandi formanns á bæði starfsmenn Eflingar og annað starfsfólk í verkalýðshreyfingunni.

Það sem gerst hefur síðan er að varaformaðurinn Agnieszka tók við af Sólveigu og Ólöf Helga varð varaformaður. Saman hafa þær tvær leitt starfsemi Eflingar í gegnum það andlega gjaldþrot sem fyrri stjórnendur ollu og reynt af bestu getu að koma starfseminni í gott horf. En nú hefur Sólveig Anna Jónsdóttir boðið fram nýjan lista ,,Baráttulistann“ og sækist aftur eftir umboði félagsmanna Eflingar. Það er vissulega hennar mál og félagsmanna í Eflingu.

Ég get hins vegar ekki setið þegjandi undir þeim fúkyrðaflaum og ærumeiðandi aðdróttunum sem frá Sólveigu Önnu koma um starfsfólk í verkalýðshreyfingunni, trúnaðarmenn og annað forystufólk.

Efling er eitt 19 félaga í Starfsgreinasambandinu og eitt tæplega 50 félaga í ASÍ. Lýsingar hennar á fyrrum samstarfsfólki sínu hvort sem er í Eflingu eða annarsstaðar, eru ekki boðlegar.

Ég er þeirrar skoðunar að hún geri sig óhæfa til forystu og samstarfs með þessari framkomu. Hún ætti að beina kröftum sínum og kjafthætti að réttum andstæðingum þegar kemur loks að kjaraviðræðum.  Ég get ekki setið  hjá og látið þetta yfir mig, mína samstarfmenn og  starfsfólk Stéttarfélags Vesturlands ganga. Hér starfar heiðarlegt, vandað og velviljað fólk. Það er ráðið til starfa af stjórn félagsins og tekur laun samkvæmt kjarasamningum.

Það er ekki í mínum verkahring að segja félagsmönnum í Eflingu stéttarfélagi hverja þeir eiga að velja til forystu. Ekki frekar en að formenn VR og Verkalýðsfélags Akraness eiga að gera það. Félagsmenn Eflingar bera ábyrgð á því að velja sér forystu og verða að standa og falla með því vali. Við sem störfum hjá öðrum stéttarfélögum þurfum svo að ákveða með okkar félögum með hverjum við viljum vinna í framtíðinni.

Ég hef ekkert umburðarlyndi gagnvart fúkyrðum Sólveigar Önnu Jónsdóttur

Signý Jóhannesdóttir

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei