Eins og fram hefur komið áður var kjarasamningur Elkem Ísland felldur ekki alls fyrir löngu. Var aftur komið saman að borðum og undirritaður svo nýr samningur þann 11. apríl sl. Þær breytingar urðu frá fyrri samning að dagmenn eru að fá 0,11% viðbót við sínar launabreytingar og hjá vaktmönnum náðist samkomulag um svokallaða rauða daga sem falla frá mánudegi til föstudags en það var sett inn í vaktaálagið sem gerir það að verkum að vaktaálagið fer úr 37,62% í 38,26% sem skilar vaktmönnum 0,43% launahækkun eða tæpum 50.000 kr. á ársgrundvelli. Öll laun hækka um tæp 6,1% eða með sambærilegum hætti og var gert í Norðurálssamningnum. Einnig náðist að tryggja að greitt verði fyrir stórhátíðardaga sem sambærilegum hætti og gert er í Norðuráli en ágreiningur um þetta mál mun fara fyrir Félagsdóm og ef það mál vinnst þar mun koma til afturvirkni eða eins og dómur mun kveða á um. En þessi breyting mun skila því að starfsmenn munu fá allt að 20.000 kr. fyrir 8 tíma vakt á stórhátíðardegi en voru áður einungis að fá rétt um 2.900 kr. Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða sem getur skilað, þegar allir stórhátíðardagar eru teknir með, allt að 80.000 kr. kjarauppbót á ársgrundvelli.
Samningurinn er að öðru leyti eins og fyrr samningur. Orlofs- og desemberuppbætur hækka um 35.959 samtals á ári. Gildir samningurinn í 4 ár og munu launabreytingar verða tengdar við 95% af launavísitölu. Heildarlaun ofngæslumanna munu því frá 1. janúar 2025 hækka um 49.552 kr. hjá byrjanda og hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu um tæpar 60.000 kr. eða 6,67%. Með hækkun á orlofs- og desemberuppbótum nemur prósentuhækkunin yfir 7%. Dagmenn eru að hækka frá 36.378 kr. upp í tæpar 43.000 kr. á mánuði og með orlofs- og desemberuppbótum nemur þeirra hækkun 6,5%.
Hægt er að skoða kynningu á samningnum hér og hvetjum við félagsmenn að kynna sér ítarlega hvað fellst í honum.