Kjarasamningur við Norðurál undirritaður

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Nýr kjarasamningur við Norðurál var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær. Hækkun á fyrri taxta nemur 6,15%  frá 1. janúar 2025 sem og orlofs- og desemberuppbætur. Samningurinn gildir í 5 ár, fyrsta árið tekur til fyrrgreindar hækkunar og munu laun svo hækka samkvæmt 95% af launavísitölu Hagstofu Íslands sem og aðrir kjaraliðir næstu fjögur ár samningsins.

Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka samtals um 35.790 krónur í upphafi samnings, verða 308.973 krónur hvor fyrir sig. Samningurinn mun gilda afturvirkt frá 1. janúar eins og fyrr segir og munu því starfsfólk eiga von á eingreiðslu vegna þeirra afturvirkni. Jafnframt var samið um að fastráðnir starfsmenn sem starfað hafa í eitt ár eða lengur fái einn auka frídag en auk þess fær vaktavinnufólk sem er fastráðið á átta tíma vöktum, sem starfað hefur í ár eða lengur, einn orlofsdag til eða samtals tvo daga.

Einnig verður meiri sveigjanleiki á orlofi starfsmanna en gert var samkomulag um að starfsmenn muni hafa heimild til að færa allt að 50% af vetrarorlofi yfir á sumarorlofstímabil sem á að gagnast fólki vel ef það vill lengja hjá sér sumarfríið. En þetta er heimildarákvæði sem starfsmenn munu hafa.

Kynning á samningnum mun fara fram í næstu viku og rafræn atkvæðisgreiðsla um kjarasamninginn mun hefjast í kjölfarið en verður auglýst nánar síðar. Hvetjum félagsmenn Stéttarfélags Vesturlands til að fylgjast vel með.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei