Leita eftir konum til að taka þátt í viðtalsrannsókn á félagslegum veruleika verkakvenna

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Verkakonur, vellíðan og velferðarkerfið

er yfirskrift rannsóknar sem Háskólinn á Akureyri ásamt Háskóla Íslands er að fara af stað með. Leita aðstandendur rannsóknarinnar nú eftir kvenkyns viðmælendum til að taka þátt en tilgangur rannsóknarinnar er að öðlast skilning á félagslegum veruleika verkakvenna.

„Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á félagslegan veruleika, líkamlega og andlega heilsu, samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs og félagsleg tengsl ólíkra hópa kvenna á Íslandi. Jafnframt er markmiðið að auka skilning á þeirri reynslu sem lágtekjukonur hafa af velferðarkerfinu og mögulegum áhrifum þess á félagslegt misrétti“ segir Andrea Hjálmsdóttir einn aðstandandi rannsóknarinnar.

Líkt og kemur fram á vef rannsóknarinnar hafa rannsóknir á ójöfnuði lengst af einblínt á ójöfnuð milli ólíkra hópa, meðal annars karla og kvenna, en síðustu tvo áratugi hafa komið fram fleiri rannsóknir sem gefa vísbendingar um vaxandi ójöfnuð innan hópa og fram hafa komið rannsóknir sem benda til þess að aukin skautun (e. polarization) sé að verða á milli kvenna á Vesturlöndum. Stéttaskipting meðal kvenna hefur þó lítið verið rannsökuð, hvorki á Íslandi né annars staðar.

„Í þessari rannsókn greinum við svör íslenskra kvenna eftir stéttastöðu þeirra og skoðum hvort tengsl séu til staðar milli stéttar og m.a. andlegrar og líkamlegrar líðanar, félagslegra tengsla, samþættingar fjölskyldu- og atvinnulífs og trausts til opinberrar þjónustu. Við viljum því leitum til kvenna sem eru að minnsta kosti í 80% starfshlutfalli og eiga auk þess að minnsta kosti eitt barn á leik- og/eða grunnskólaaldri“ bætir Andrea við. Viðtölin geta farið fram á íslensku, ensku eða pólsku og geta því konur bæði af íslenskum og erlendum uppruna sem áhuga hafa á þátttöku tekið þátt. Stéttarfélag Vesturlands hvetur sínar félagskonur sem áhuga hafa á þátttöku eða langar að vita meira um rannsóknina að senda tölvupóst á konur@unak.is eða fara á vef rannsóknarinnar.  Viðmælendur fá greiddar 10.000 krónur í formi Bónuskorts fyrir þátttökuna í rannsókninni.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei