Ný rannsókn sýnir mikla óánægju meðal foreldra með svokallað Kópavogsmódel í leikskólamálum

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins kynnti í dag niðurstöður nýrrar viðtalsrannsóknar á hinu svokallaða Kópavogsmódeli í leikskólamálum. Rannsóknin byggir á viðtölum við 20 foreldra leikskólabarna í Kópavogi en viðmælenda var aflað með tilviljunarkenndu úrtaki.

Hvað er Kópavogsmódelið í leikskólamálum?

Kópavogsmódelið er hugtak sem notað er yfir grundvallarbreytingar sem Kópavogsbær réðst í haustið 2023 á leikskólakerfinu. Breytingin fólst í að sex tíma vistun er nú gjaldfrjáls í leikskólum Kópavogsbæjar en vistun umfram það felur í sér meiri kostnað en áður.

Sparnaður útgangspunktur breytinganna – ekki velferð barna eða starfsfólks

Margir viðmælendur upplifa að kerfisbreytingarnar á starfsemi leikskólanna hafi fyrst og fremst verið gerðar út frá fjárhagslegum hvötum Kópavogsbæjar en ekki með velferð barna, starfsfólks og foreldra að leiðarljósi.

Skráningardagar harðlega gagnrýndir

Mikil óánægja er með fyrirkomulag skráningadaga og safnskóla. Á skráningadögum þurfa foreldrar sérstaklega að skrá börnin sín, sem sækja ekki sinn leikskóla eins og venjulega, heldur er safnað saman í tvo leikskóla í sveitarfélaginu sem eru opnir á þessum dögum.

Margir foreldrar senda ekki börnin sín í leikskóla á þessum dögum nema í neyð og lýsa því að börnin upplifi streitu og óöryggi við að fara í ókunnugt umhverfi.

Kerfisbreytingarnar ýta undir félagslega mismunun og auka álag – sér í lagi á ákveðna hópa

Kerfið hentar sérstaklega illa foreldrum í verri félagslegri- og efnahagslegri stöðu og eykur enn frekar bæði almennt álag og fjárhagslegt álag á þá hópa.

Gengið er út frá því að foreldrar hafi gott félagslegt bakland, séu með sveigjanleika í vinnu eða í hlutastarfi, sem er ekki raunveruleiki allra foreldra.

Breytingarnar hafa meiri áhrif á mæður en feður

Margir viðmælendur töluðu um að breytingarnar hefðu mun meiri áhrif á mæður en feður þar sem þær bæru í meira mæli ábyrgð á að bregðast við styttri vistunartíma.

Foreldrar lýsa togstreitu vegna álags á ömmur sem hlaupa undir bagga með fjölskyldum vegna breytinganna.

Aukið álag og streita

Margir foreldrar lýsa mikilli tímapressu og streitu við að samræma vinnu og fjölskyldulíf og að breytingarnar hafi aukið álagið.

Þeir foreldrar sem búa við sveigjanleika í vinnu finna  samt sem áður fyrir auknu álagi eftir breytingarnar.

Um Vörðu

Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins var stofnuð árið 2019 af Alþýðusambandi Íslands og BSRB. Markmiðið með stofnuninni var að efla rannsóknir á sviði vinnumarkaðar, félags- og efnahagsmála sem er ætlað að bæta þekkingu á lífsskilyrðum launafólks og brúa bilið á milli fræðasamfélagsins og verkalýðshreyfingarinnar. Stofnunni er ætlað að dýpka umræðuna um kaup og kjör og koma þannig með aukið fóður inn í baráttu launafólks fyrir bættri afkomu með betri lífsskilyrðum.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei