„Sálinn“ og samfélagið

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Stéttarfélög á Íslandi eru ótrúlega mörg og ólík. Sum eru fámenn og gæta hagsmuna mjög afmarkaðra hópa, önnur eru svo fjölmenn að iðgjaldagreiðendur teljast í tugum þúsunda. Til eru félög sem ná yfir stóra landshluta og önnur sem starfa í einu afmörkuðu sveitarfélagi. Síðan eru það landsfélögin, sem hafa innan sinna vébanda starfsfólk í tilteknum greinum óháð því hvar fólk býr og starfar. Sum félög gera einungis einn kjarasamning, önnur gera marga tugi, auk margra vinnustaðasamninga. Svo eru það félögin sem semja á almenna vinnumarkaðnum og tilheyra ASÍ og síðan hin “opinberu félög” sem helst semja við ríkið og sveitarfélögin. Enn ein tegund félaga eru svo “Gulu” félögin sem ekki stunda eiginlega kjarabaráttu en ljósrita kjarasamninga annarra og kosta litlu til vinnunnar sem að baki samningum liggur og halda félagsgjöldunum sínum í lágmarki, boða aldrei til aðgerða og sigla oftast lygnan sjó.

Það eru viss forréttindi að fá að starfa í fremur litlum, blönduðum landsbyggðarfélögum innan ASÍ. Með því móti öðlast maður skilning á eðli samfélagsins, þörfum þess og væntingum. Í litlu stéttarfélagi þurfa starfsmenn að hafa yfirsýn yfir nánast allt sem gerist inna veggja þess og það eru ótrúlegustu erindi sem borin eru upp á skrifstofum þeirra. Félögin reka hina ýmsu sjóði, s.s. fræðslusjóði og orlofs- og sjúkrasjóði.

Að gefnu tilefni  langar mig að gera örlitla grein fyrir starfsemi Sjúkrasjóðs Stéttarfélags Vesturlands.

Sjóðurinn starfar eftir fyrirmyndarreglugerð ASÍ og uppfyllir öll lágmarksákvæði hennar. Í hverjum mánuði eru greiddir sjúkradagpeningar vegna veikinda félagsmanna, maka þeirra eða barna. Stundum eru fáir umsækjendur en á öðrum tímum er margir. Eins er með umsóknir um heilsustyrki og forvarnir, þær sveiflast, en oftast skipta þær einhverjum tugum.

Reglugerðir flestra sjúkrasjóða gera ráð fyrir að stjórnir þeirra geti ákveðið að taka þátt í fyrirbyggjandi verkefnum. Haustið 2016 tók stjórn Sjúkrasjóðs Stéttarfélags Vestulands ákvörðun um að taka höndum saman við Menntaskóla Borgarfjarðar og berjast gegn brottfalli úr skólanum og hjálpa nemendum að vinna bug á sálrænum erfiðleikum sem oft eru orsakir brottfalls. Starfsmenn félagsins höfðu orðið varir við að ungmenni voru að sækja um styrki hjá félaginu, skólafólk sem átti lítinn rétt, en þurfti að greiða háar fjárhæðir fyrir tíma hjá sálfræðingum. Samkomulag þetta var endurnýjað í lok júní sl. til tveggja ára.

Blekið var vart þornað á samningnum við MB þegar alþingi samþykkti að sálfræðiþjónusta yrði hluti af Sjúkratryggingum Íslands. Undirrituð eins og fleiri fagnaði því að nú væri loksins komin lausn, sem hjálpað gæti ungu fólki í vanda, en þá kom í ljós að úrræðið er ekki fjármagnað, þannig að samþykkt þingsins er í raun einskis virði – ennþá.

Það vakti samt enn meiri furðu mína að daginn eftir að lítil frétt kom á heimsíðu félagsins og einnig á síðu Menntaskólans, frétt sem var svo tekin upp í Skessuhorninu, kom tölvupóstur frá skólameistara sem stýrir skóla sem ekki starfar á félagssvæði Stéttarfélags Vesturlands. Þessum skólameistara fannst tilvalið að Stéttarfélag Vestulands fjármagnaði stöðu sálfræðings ca. svona 25 -50% við þann skóla.

Nú veit ég auðvitað ekki hvaða þekkingu viðkomandi skólameistari hefur á skipulagi verkalýðshreyfingarinnar og getu einstakra sjúkrasjóða, en það er alltof algengt að lykil starfsfólk í íslensku samfélagi hafi enga þekkingu á störfum stéttarfélaga eða skipulagi vinnumarkaðarins.

Sjúkrasjóður Stéttarfélags Vesturlands mun standa við samning sinn við Menntaskóla Borgarfjarðar út samningstímann. Vonandi verður að tveimur árum liðnum búið að finna laust fé í heilbrigðiskerfinu til að fjármagna þennan mikilvæga  þátt heilsugæslunnar. Hvort stjórnir sjúkrasjóða annarra félaga sjá sóma sinn í að gera samsvarandi samninga við menntastofnanir á þeirra starfssvæðum er eitthvað sem Stétt Vest getur ekki tekið ábyrgð á, en vissulega væri það hið besta mál.

Signý Jóhannesdóttir

Formaður Stéttarfélags Vesturlands

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei