Stjórnarskráin og skipulagður vinnumarkaður!

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

“Hvað, það er félagafrelsi í landinu!

Þetta er fullyrt aftur og aftur við starfsmenn Stéttarfélags Vesturlands, þegar við erum að reyna að fá launagreiðendur vítt og breytt um landið til að skilja að það beri að skila iðgjöldum af starfsfólki í þau stéttarfélög sem starfa á þeirra félagssvæði og hafa kjarasamning um viðkomandi störf. “Hann/ hún vill endilega greiða til ykkar”, er svo næsta setning og því fylgt eftir með dæsi um félagafrelsi.

Vissulega er í stjórnarskránni 74. gr. fjallað um félagafrelsi. Ákvæðin fjalla um rétt manna til að stofna félög og frelsi til að standa utan félaga. Í annari málsgrein segir að ekki megi skylda neinn til aðildar að félagi, nema auðsyn beri til vegna almannahagsmuna.

Stéttarfélag Vesturlands lítur svo á að til að gæta réttinda félagsmanna sinna í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur, sé nauðsynlegt að hafa ákveðið skipulag á vinnumarkaði.

Í starfskjaralögunum nr. 55/1980 6. gr. segir:

Öllum atvinnurekendum er skylt að greiða í [fræðslusjóði atvinnulífsins sem og] 1) sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni, og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.
Atvinnurekanda er skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.

Við eigum oft í samskiptum við launagreiðendur sem eru algjörlega þversum. Sumir neita að virða þetta ákvæði nefndrar  6. gr. og draga hvorki iðgjöld né skila mótframlögum nema launamaðurinn biðji sérstaklega um það. Þannig getur launagreiðandinn haft umtalsverð réttindi af starfsmönnum sínum. Aðrir stunda það meðvitað að skila iðgjöldum af starfsmönnum út um allar koppagrundir. Stórir hópar samstarfsmanna sem allir ættu að taka kjör eftir sama kjarasamningi og greiða til sama félags, greiða til tuga félaga sem hafa enga tengingu hvorki við félagssvæðið né þann kjarasamning sem á við störfin. Þegar þetta er gert meðvitað grunar okkur að tilgangurinn sé sá að koma í veg fyrir samstöðu meðal starfsmannanna og að þeir hafi ekki möguleika á að velja sér trúnaðarmann, eins verður samtakamátturinn enginn í verkfallsátökum.

Forsvarsmenn fyrirtækjakeðja svara jafnvel því til að þar sem Starfsgreinasambandið með sínum 19 aðildarfélögum hafi gefið kjarasamninga við SA út í einni bók, megi í raun skila í hvað félaga sem er af þessum 19.

Stéttarfélagið lendir líka í stappi við þrautseiga einstaklinga sem líta á gamla félagið sitt sem átthagafélag og telja það jafnvel móðgun við sig, þegar reynt er að skýra það út að við getum hvorki varið eða sótt réttindi fyrir þá, þvert yfir landið milli félagssvæða.

Til að skýra út hvers vegna fólk getur ekki bara valið sér stéttarfélag er oftast best að lýsa því að t.d. þeir þeir sem ræsta í grunnskólunum taka ekki laun eftir samningum Kennarasambandsins. Eins nefnum við stundum að til sé Félag starfsmanna stjórnarráðsins og við höfum grun um að þar séu þokkaleg kjör en við getum víst ekki gengið í það félag. Það sem mestu máli skiptir hins vegar er að við getum ekki sótt mál fyrir fólk t.d. sem starfar á höfuðborgarsvæðinu en vill greiða í okkar félag. Eins er það að ef það kemur  til vinnustöðvunar þá getur Stéttarfélag Vesturlands ekki boðað til verkfalla á öðrum starfssvæðum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei