Viljum við þakka kærlega fyrir komuna á baráttufund félagasins á 1. maí í Hjálmakletti Borgarnesi og Dalabúð í Búðardal. Báðir fundirnir voru vel sóttir. Yfirskrift fundanna í ár var Við sköpum verðmætin.
í Borgarnesi var haldið upp á það að í haust verða 50 ár liðin frá kvennafrídeginum þegar konur lögðu niður öll störf, launuð sem ólaunuð. Bar öll dagskrá fundarins mið af þessu og stigu konur á stokk í miklum meirihluta. Auk þess var örsýning frá störfum kvenna í hreyfingunni í þeim félögum sem seinna sameinuðust í Stéttarfélag Vesturlands sem og myndasýning sem sýndu konur við störf í gegnum tíðina. Ræðumanneskja dagsins var Kristín Heba Gísladóttir og má lesa ræðu hennar hér. Silja Eyrún Steingrímsdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands flutti ávarp dagsins og má lesa það hér. Leikfélagið Kopar kom með atriði úr sýningu sinni Með allt á hreinu sem var frumflutt nú á vormánuðum, Guðrún Katrín Sveinsdóttir, ung tónlistarkona úr Tónlistarskóla Borgarfjarðar flutti tónlist og Freyjukórinn söng fundargesti inn í vorið undir dyggri stjórn Hólmfríðar Friðjónsdóttur. Tónlistarkonan Soffía Björg var svo rúsínan í pylsuendanum með nokkur af sínum bestu lögum. Var ekki annað að sjá en að fundargestir skemmtu sér mjög vel.

Konur minntust þess að 50 ár eru liðin frá því að konur á rauðum sokkum lögðu niður störf. Margar mættu því á rauðum sokkum þeim til heiðurs.
Í Búðardal var ræða dagsins í höndum Sólrúnar Ýrar Guðbjartsdóttur kennara úr Auðarskóla og kynnir var Þóra Sonja Helgadóttir verkefnastjóri Kjalar í Stykkishólmi. Þar stigu á stokk Þorrakórinn sem flutti ljúfa tóna og börn úr Tónlistarskóla Auðarskóla komu fram. Kaffiveitingar voru að venju vel úr garði gerðar var umsjón þeirra í höndum skátafélagsins Stíganda í Búðardal og 9. bekkjar grunnskólans í Borgarnesi, þakka félögin þeim sérstaklega vel fyrir. Hér að neðan má sjá nokkrar svipmyndir frá fundinum í Borgarnesi

Soffía Björg Óðinsdóttir tónlistarkona

Guðrún Katrín Sveinsdóttir úr Tónlistarskóla Borgarfjarðar

Leikfélagið Kopar – Grýlurnar ásamt hljómsveit.

Freyjukórinn

Silja Eyrún formaður StéttVest ásamt Signý fyrrum formanni StéttVest

Ræðumanneskja dagsins Kristín Heba Gísladóttir framkvæmdarstjóri Vörðu