Stéttarfélögum víðsvegar um land bárust þær fregnir á haustmánuðum 2024 að fyrirtækið Dagar hf., sem hefur tæplega helmingshlutdeild á ræstingamarkaði, væri tekið að lækka laun starfsfólks síns um 20%. Á næstu misserum bárust fréttir um að fleiri fyrirtæki hefðu og eru að leika sama leik. Upp hófst mikil og löngu tímabær umfjöllun um störf og kjör ræstingafólks. En hverjar eru staðreyndir málsins? Hvað snýst þetta allt um?
Kjarasamningsgerð – umsamdar hækkanir
Við gerð kjarasamninga í fyrra ríkti um það einhugur hjá Starfsgreinasambandi Íslands, Eflingu og Samtökum atvinnulífsins að bæta sérstaklega launakjör ræstingafólks. Ákveðið var að sá hópur fengi aukna hækkun um tvo launaflokka, auk mánaðarlegs ræstingaauka, 19.500 kr. eða hækkun sem nam 11,9% að lokinni gildistöku ræstingaauka 1. ágúst sl. Þannig var samið um að hækka þáverandi laun sérstaklega, enda samhljómur um að gera þyrfti betur fyrir þennan hóp, sem sinnir gífurlega erfiðu grunnstarfi í þágu samfélagsins. Án ræstingafólks verður ekki haldið opnum heilbrigðisstofnunum, umönnunarheimilum, skólum og svo mætti lengi telja.
Eins og margoft hefur komið fram, er það skýr afstaða ASÍ, SGS og Eflingar að sú launalækkun sem deilt er um hér, er ekki lækkun launa umfram lágmarkstaxta heldur eins og rakið hefur verið, lækkun kjarasamningsbundinna launa. Dapurlegt er því að horfa upp á Samtök atvinnulífsins samþykkja og styðja við þá ákvörðun stjórnenda fyrirtækjanna að lækka laun til að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri. Þessi hagræðing var ákveðin á meðan sömu aðilar sátu við samningaborðið og lofuðu umbótum og hækkun lægstu launa. Augljóst er að enginn vilji var hjá þessum fyrirtækjum sem samanlagt hafa yfirgnæfandi mannafla í greininni að vinna að því sameiginlega verkefni sem lagt var upp með í kjarasamningunum. Slík vinnubrögð fela í sér alvarlegan trúnaðarbrest.
Hvað er tímamæld ákvæðisvinna?
Tímamæld ákvæðisvinna kallast það fyrirkomulag er starfsmaður fær greitt fyrir ákveðin verkefni út frá áætluðum tímafjölda. Verkefnið er þannig mælt upp og heildartíminn ákvarðaður sem slíkt verkefni mun taka. Almennur hraði miðast við 100 í vinnutakt, eða 100 fm2 á klukkustund. Á almennum vinnumarkaði hefur verið samið um að greiða fyrir vinnuhraðann 130, eða 130 fm2 á klst. Útreikningur tekur mið af tíðni þrifa, gólfefni, fermetrafjölda, gerð rýmis og öllum hindrunum sem hægja á afköstum við þrifin. Fyrir hraðari vinnu en almennt má ætlast til hefur þannig verið samið um 12% hærri laun, auk 8% hærri laun fyrir að taka færri neysluhlé.
Kjarasamningur aðila gerir ríka kröfu um gegnsæi hvað varðar vinnuskilyrði, vinnuhraða og launakjör. Fjölmörg fyrirtæki hafa eins og fram hefur komið í fréttum, hundsað kjarasamningsbundin réttindi og skyldur sem gilda um ræstingastörf. Þannig hafa þau beitt yfirburðarstöðu sinni gagnvart starfsfólki
Logið að starfsfólki?
Fyrir liggja ráðningarsamningar frá Dögum hf. frá árinu 2023 og 2024 þar sem skýrt er tekið fram að fólk sé ráðið í tímamælda ákvæðisvinnu. Eftir kjarasamningsgerð vorið 2024 var starfsfólki í tímamældri ákvæðisvinnu gert að taka á sig launalækkun sem nemur þeim 20% sem voru tilkomin vegna ákvæðisvinnunnar. Starfsfólki er tjáð að það hafi notið yfirborgunar þrátt fyrir að ekkert slíkt hafi verið gefið til kynna enda var starfsfólk ráðið með skýrum hætti í ákvæðisvinnu og í engu var slakað á kröfum um vinnuhraða, þvert á móti. Þá liggur fyrir að vinnufyrirkomulagi var ekki breytt eftir að launakjörum hafði verið breytt.
Knappar og óskýrar útskýringar voru gefnar og fólki afhent skjal sem er titlað sem samkomulag. Umrætt samkomulag kveður ekki á breytingu á vinnuumhverfi.
Hér er lykilatriði að setja sig í spor launafólksins af 40 þjóðernum með mislanga búsetu og reynslu af íslenskum vinnumarkaði. Stéttarfélögin hafa fengið lýsingar af atburðum og upplifun launafólks og er ljóst að um svarta sviðsmynd er að ræða. Eftir ánægju sérstakar hækkunar launa eftir síðustu kjarasamningsgerð er sú vegferð sem hér er lýst og er til umfjöllunar hafin. Fólkið sem fagnaði hærri launum, kveður nú þá hækkun og tekur á sig enn frekari launalækkun. Það stendur í dag eftir með lægri laun en fyrir kjarasamningana!
Útvistun og siðlaus sparnaður
Sú útvistunarvegferð sem hófst upp úr aldamótum er komin í algjört óefni. Ríki og sveitarfélög hafa veitt útvistun starfa einbeitta forystu. Tilefnið er jafnan hið sama: krafa um sparnað í rekstri ríkis og sveitarfélaga. Og hvar er valið að knýja fram sparnaðinn? Jú, í röðum kvenna sem lægst hafa launin og vinna erfiðustu störfin!
Leitað er tilboða með opinberu útboði þar sem því lægsta er alla jafna tekið. Við tekur einkarekinn og hagnaðardrifinn atvinnurekstur sem leitar allra leiða til að veita þjónustu með sem minnstum tilkostnaði.
Langstærsti hluti launakrafna stéttarfélaga vegna vangreiddra launa er fyrir hönd innflytjenda og verður ekki annað ályktað en margir atvinnurekendur telji sjálfsagt að nýta sér yfirburðastöðu sína gagnvart þessu aðflutta launafólki.
Með ólíkindum er að ríki og sveitarfélög hafi forystu um að búa í haginn fyrir slíka misneytingu.
Minnumst þess að um opinber innkaup gilda sérstök lög með það að markmiði að „tryggja jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.“
Tvennt er að finna í umræddum lögum um ábyrgð útboð gagnvart launafólki: Kaupanda er heimilt að hafna tilboði ef m.a. bjóðandi tryggir ekki kjarasamningsbundin réttindi eða önnur félagsleg réttindi. Þá er kaupanda einnig heimilt að tryggja aðfangakeðjuna og gangast í ábyrgð ef kjarasamningsbundin réttindi eru ekki virt hjá þeim sem er seljandi þjónustu. Vonbrigði er að slíkt sé valkvætt í íslenskum lögum þegar almannafé er til ráðstöfunar en það hlýtur þó að hvíla rík skylda á stjórnvöldum að tryggja réttindi þess fólks sem starfar í keðjunni þeirra. Enn meiri vonbrigði er þegar stjórnvöld kjósa að nýta ekki umrædda heimild.
Úrbætur strax!
Við undirrituð fordæmum framgöngu Daga og annarra fyrirtækja sem ákveðið að hafa auka enn hagnað sinn með því að níðast á þeim hópum launafólks sem fullyrða má að eru í erfiðustu stöðu hér á landi.
Við krefjumst þess að fyrirtæki þessi taki þegar í stað upp greiðslur í samræmi við gerða kjarasamninga.
Um leið fordæmum við það algjöra sinnuleysi sem einkennir framgöngu ráðafólks hjá ríki og sveitarfélögum og vekjum athygli á þeirri hróplegu hræsni sem einkennir málflutning þessa fólks um inngildingu og virðingu fyrir störfum annarra. Við krefjumst þess að ef fyrirtækin láta ekki af hegðun sinni grípi sveitafélög og ríki inní með aðgerðum, sem þeim er siðferðilega skylt að gera.