STARFSREGLUR

Starfsreglur Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks

Gilda frá 1. janúar 2014

1. Stjórn sjóðsins er heimilt að móta starfsreglur skv. 5.7. gr. reglugerðar sjóðsins eftir því sem reynsla og starfsemi sjóðsins gefur tilefni til.

2. Sjóðurinn veitir einstaklingum og fyrirtækjum styrki til að uppfylla markmið sjóðsins sbr. 2. gr. reglugerðar sjóðsins.

3. Stjórn sjóðsins felur VR daglega umsjón hans skv. 5.6. gr. reglugerðar sjóðsins og jafnframt að semja skriflega við aðildarfélög sjóðsins um innheimtu á iðgjöldum.

 

Úthlutunarreglur sjóðsins fyrir umsóknir félagsmanna

4. Umsækjandi þarf að fylla út umsókn hvort sem er rafrænt eða á eyðublaði sem nálgast má hjá aðildarfélögum sjóðsins eða á heimasíðu hans www.starfsmennt.is. Umsókninni skal fylgja löggildur reikningur þar sem eftirfarandi atriði skulu tilgreind:

 • Námskeiðslýsing
 • Nafn og kennitala félagsmanns
 • Nafn og kennitala fræðsluaðila
 • Dagsetning greiðslu

Ekki er hægt að sækja um styrk ef reikningur er eldri en 12 mánaða eða gefinn út áður en umsækjandi verður félagsmaður. Allar umsóknir skal senda til viðkomandi stéttarfélags.

5. Til þess að geta sótt um styrk úr sjóðnum þarf félagsgjald að hafa borist vegna þriggja mánaða af síðustu tólf mánuðum, þar af a.m.k. vegna eins mánaðar af síðustu sex mánuðum.  Öll réttindi falla niður ef félagsgjöld hafa ekki borist vegna síðustu 6 mánaða.

Félagsmaður með laun sem eru jöfn eða hærri en byrjunarlaun afgreiðslufólks á rétt á hámarksstyrk kr. 130.000 á hverju almanaksári.

Réttindi til styrks reiknast sem hlutfall launa félagsmanns af byrjunarlaunum afgreiðslufólks í 100% starfi á 12 mánaða tímabili. Við útreikning á réttindum er miðað við að lokamánuður ofangreinds tímabils sé tveimur mánuðum áður en umsókn berst.

Ógreidd félagsgjöld einyrkja mynda ekki réttindi.

Dæmi um útreikning og ákvörðun tímabils:

Umsókn berst í janúar 2018. Tólf mánaða viðmiðunartímabil er desember 2016 til nóvember 2017. Byrjunarlaun 12 mánaða viðmiðunartímabils eru kr. 249.600 * 5 (des 2016 – apr 2017) +  kr. 262.532 * 7 (maí 2017 – nóv 2017)  = kr. 3.085.724.

Dæmi 1

Laun félagsmanns kr. 300.000 * 12 = kr. 3.600.000

Réttindi kr. 3.600.000/3.085.724 = 116,7% lækkað í 100%

Hámarks styrkupphæð kr. 130.000

Dæmi 2

Laun félagsmanns kr. 120.000 * 12 = kr. 1.440.000

Réttindi kr. 1.440.000/3.085.724 = 46,7%

Hámarks styrkupphæð kr. 130.000 * 46,7% = kr. 60.710

Athugið að tölur í dæmunum breytast samhliða breyttum launakjörum í nýjum kjarasamningi hverju sinni. 

6. Sá sem greiðir félagsgjald og er atvinnuleitandi, í fæðingar- og foreldraorlofi eða fær greidda sjúkradagpeninga frá stéttarfélagi innan LÍV heldur réttindum sínum á meðan félagsgjöld til stéttarfélags berast.

7. Þeir sem hafa náð töku ellilífeyris og öryrkjar halda fullum rétti í 12 mánuði frá því að greiðslur til sjóðsins hætta að berast og 36 mánuði í tómstundastyrk. Réttindi miðast við síðustu greiðslur sem berast í sjóðinn.

8. Starfsmenntastyrkur: Veittur er starfsmenntastyrkur að hámarki kr. 130.000 á ári, en þó aldrei hærri en sem nemur 90% af námsgjaldi/þátttökugjaldi. Ekki er veittur styrkur vegna gistingar né uppihalds tengt starfsmenntuninni.

Undir starfsmenntastyrk falla starfstengd námskeið, starfstengd netnámskeið, nám til eininga og réttinda, ráðstefnugjald erlendis og innanlands og tungumálanámskeið. Stjórnendaþjálfun og starfstengd markþjálfun að hámarki 12 tíma innan almanaksárs telst einnig undir starfstengdan styrk. Á reikningi fyrir stjórnendaþjálfun og starfstengdrar markþjálfunar verður að koma fram að þjálfunin sé starfstengd og fjöldi tíma.

Starfstengt netnám: Vegna netnámskeiða þarf námskeiðið að hafa skilgreint upphaf, endi og vera með leiðbeinanda. Ef um áskrift að vefsíðu/efnisveitu með starfstengdum námskeiðum/kennsluefni er að ræða, styrkir sjóðurinn að hámarki aðgang til 1 árs.

Vegna starfstengdra ráðstefna erlendis og innanlands þarf dagskrá ráðstefnu að fylgja umsókn og tengill á heimasíðu. Einnig skal fylgja rökstuðningur um tengingu við starf ef það er óljóst. Ráðstefnugjaldið er styrkhæft, en hvorki gisting né uppihald.

Skilyrði fyrir starfsmenntastyrk er að félagsmaðurinn greiði sjálfur námskeiðsgjald/ráðstefnugjald.

Uppsafnaður styrkur: Hafi félagsmaður ekki fengið starfstengdan styrk úr sjóðnum sl. 36 mánuði getur uppsafnaður styrkur til starfstengds náms orðið að hámarki kr. 390.000 og miðast við 90% styrk fyrir einu samfelldu námi. Aðeins er hægt að sækja um styrkinn í einu lagi. Greiðslur til sjóðsins þurfa að hafa borist að lágmarki í 30 mánuði af síðustu 36 mánuðum fyrir dagsetningu umsóknar og uppfylla auk þess skilyrði 1. mgr. 5. gr. starfsreglna þessara. Miðað er við byrjunarlaun afgreiðslufólks í 100% starfi á tímabilinu.

9. Tómstundastyrkur: Veittur er 50% styrkur af námskeiðsgjaldi að hámarki kr. 30.000 á ári. Upphæðin dregst frá hámarksstyrk ár hvert en hefur ekki áhrif á uppsöfnun. Tómstundastyrkur nær eingöngu til tómstundanámskeiða innanlands. Skilyrði er að námskeiðið hafi skilgreint upphaf, endi og sé með leiðbeinanda.

10. Ferðastyrkur: Veittur er 50% styrkur af ferðakostnaði að hámarki kr. 40.000 á ári sem dregst frá hámarksstyrk þegar félagsmaður sækir starfstengt nám, námskeið, starfstengda heimsókn til fyrirtækis eða ráðstefnu utan lögheimilis. Vegalengdin milli heimilis og fræðslustofnunar verður að vera að lágmarki 50 km. Skilyrði fyrir veitingu ferðastyrks er að félagsmaður greiði ferðakostnað í tengslum við starfstengt nám, námskeið, starfstengda heimsókn til fyrirtækja eða ráðstefnu og skili inn staðfestingu á þátttöku þegar þátttökugjald er ekki innheimt.  Dagskrá verður að fylgja umsóknum vegna starfstengdra heimsókna í fyrirtæki og ráðstefna. Í dagskrá vegna starfstengdra heimsókna í fyrirtæki verður að koma fram hvaða staðir eru heimsóttir, hvert efni kynningar er á hverjum stað og tímasetningar. Einnig þarf að skila inn staðfestingu á þátttöku í formi áritaðs bréfs frá yfirmanni eða umsjónarmanni ferðarinnar. Í bréfinu skal ferðinni lýst og tilgangur hennar útskýrður.

Ferðist viðkomandi á eigin bíl getur hann sótt um ferðastyrk, sem nemur 50% af kílómetragjaldi. Við útreikning á kílómetragjaldi er stuðst við akstursgjald Fjármála- og efnahagsráðuneytis ríkisins hverju sinni.

Nota má afgang af 390 þúsunda uppsöfnuðum rétti til starfstengds náms í ferðastyrk að hámarki kr. 120.000 en þó ekki hærra en 50% af ferðakostnaði.

11. Ekki eru veittir styrkir vegna gistingar eða uppihalds, sölu/vörusýninga, starfsþjálfunar, meðferða, sjálfstyrkinganámskeiða erlendis, árgjalda, bóka- og námsgagna.

12. Sá sem reynist hafa gefið rangar eða villandi upplýsingar við styrkumsókn, eða leynir upplýsingum, missir rétt til styrks. Heimilt er að endurkrefja viðkomandi  um allan styrkinn auk dráttarvaxta.

Styrkir til fyrirtækja/stéttarfélaga

13. Fyrirtæki, sem greitt hafa iðgjöld í sjóðinn í 12 mánuði og eru í skilum, geta sótt um styrk, sjá gr. 17.  Ekki er hægt að sækja um styrk ef 12 mánuðir eru liðnir frá því að námskeiðið var haldið. Fái fyrirtæki styrk getur einstaklingur starfandi hjá því fyrirtæki ekki sótt um styrk fyrir sama námskeiði.

14. Fyrirtæki geta eingöngu sótt um styrk vegna starfstengdra námskeiða/náms/ráðstefna og er námskeiðs-, náms-, ráðstefnugjaldið eingöngu styrkhæft. Fyrirtæki geta ekki sótt um ferðastyrk. Sömu viðmið gilda fyrir fyrirtæki og einstaklinga varðandi það sem ekki er styrkhæft, sjá gr. 11, þ.e. ekki eru veittir styrkir vegna gistingar eða uppihalds, sölu/vörusýninga, starfsþjálfunar, meðferða, sjálfstyrkinganámskeiða erlendis, árgjalda, bóka- og námsgagna.

15. Fylla skal rafræna umsókn fyrirtækis á www.attin.is þar sem fram kemur m.a. lýsing á því fræðsluverkefni sem sótt er um styrk fyrir, skipulag þess, kostnaður og þátttakendalisti með nafni, kennitölu og stéttarfélagsaðild.

16. Þau verkefni sem stuðla að nýsköpun í menntun félagsmanna VR/LÍV ásamt þróunarverkefnum munu njóta forgangs við styrkveitingu.

17. Styrkur til fyrirtækis getur orðið að hámarki 50% af greiddum iðgjöldum til sjóðsins á 36 mánaða tímabili. Styrkurinn skal þó ekki vera hærri en sem nemur 90% af kostnaðar námskeiðs/ náms/ ráðstefnu og að hámarki kr. 130.000 á hvern starfsmann sem er félagsmaður í VR/LÍV.

Stjórn er heimilt að veita sérstaka undanþágu frá þessum ákvæðum ef verkefnið felur í sér frumkvöðlastarf eða nýsköpun.

18. Stjórn er heimilt að skilyrða styrkveitingu.

19. Styrkumsækjandi getur fengið samþykki fyrir styrk áður en námskeið er haldið, en greiðsla hans fer ekki fram fyrr en að námskeiði loknu. Styrksins skal vitja innan 12 mánaða frá úthlutun, annars fellur hann niður.

20. Félagsmanni og fyrirtæki gefst kostur á að sækja um sameiginlegan styrk til sjóðsins ef nám félagsmanns kostar kr. 500.000 eða meira. Umsókn er afgreidd eftir reglum sjóðsins um starfstengt nám. Félagsmaður sækir um styrkinn í gegnum sitt stéttarfélag. Með umsókn verður að fylgja: Greiddur reikningur, lýsing á náminu og undirrituð yfirlýsing frá fyrirtækinu. Í yfirlýsingunni skal koma fram að um sé að ræða sameiginleg umsókn og að námið sé hluti af starfsþróunaráætlun starfsmannsins. Við samþykkt umsóknar dregst styrkupphæðin af rétti bæði félagsmanns og fyrirtækis. Hámarksstyrkur getur orðið samtals sem nemur hámarksrétti einstaklings og hámarksrétti fyrirtækis.

Undanþága frá fullu iðgjaldi

21. Fyrirtæki geta sótt um lækkun á iðgjaldi til sjóðsins að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

a. að fram komi að virk menntastefna sé í fyrirtækinu og að starfsmenn, sem eru félagsmenn í VR/LÍV, eigi kost á að sækja þau námskeið sem eru í boði.  Bjóða þarf bæði upp á fagnámskeið og almenn námskeið. Undir fagnámskeið geta fallið netnámskeið. Netnámskeið eru námskeið sem eru að fullu eða öllu leyti á tölvutæku formi (netbased learning, online learning, e-learning).

Skilyrði fyrir því að netnám sé viðurkennt til lækkunar á iðgjaldi eru eftirfarandi:

 • Fyrirtækið sé kaupandi námskeiðsins
 • Námskeiðin séu metin og teljist til tekna í starfsþróun starfsmanns, s.s. til að viðhalda réttindum
 • Netnámskeið sem koma til lækkunar geta ekki verið hlutfallslega fleiri en þriðjungur námskeiða
 • Í sundurliðun kostnaðar skal notast við einingarverð sbr. ákvarðanir stjórnar SVS
 • Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að taka út/ meta netnámið

b. að kostnaður af menntastefnu fyrirtækisins sé hærri en sem nemur 0,30% af heildarlaunum félagsmanna VR/LÍV að frátöldum launa-, ferða-, fæðis- og gistikostnaði.

c. að fyrirtækið sé í skilum við sjóðinn og hafi greitt iðgjöld sl.12 mánuði.

Sjóðurinn áskilur sér rétt til að sannreyna menntastefnuna.

 

Umsókn skal fylgja:

 1. Námskrá fyrirtækisins, fræðsluáætlun eða önnur sambærileg gögn er staðfesti að virk menntastefna sé til staðar sbr. a. lið 21. gr.
 2. Sundurliðuð kostnaðaráætlun vegna menntunar starfsmanna sem greitt er af til sjóðsins (sjá umsóknareyðublað) b. lið 21 gr.
 3. Við endurnýjun umsóknar þurfa, auk ofangreindra gagna, að fylgja upplýsingar um þátttöku félagsmanna VR/LÍV og samanlagðan kostnað fyrirtækisins af menntun þeirra frá síðustu umsókn.

Umsókn og kostnaðaráætlun skal skila á sérstökum eyðublöðum sjóðsins.

22. Afgreiðsla undanþága fer fram samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar.

23. Samþykki stjórn lækkun iðgjaldagreiðslna úr 0,30% í 0,10% tekur hún gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir samþykki stjórnar. Gildir undanþágan í eitt ár. Endurnýi fyrirtækið undanþágubeiðni sína gildir hún eftir það í tvö ár í senn en tilskilin gögn þurfa að fylgja í hvert sinn. Umsókn um endurnýjun þarf að berast sjóðnum a.m.k. tveimur mánuðum áður en undanþágan fellur úr gildi og iðgjaldið hækkar í 0,30%. Fyrirtæki á lækkuðu iðgjaldi geta ekki sótt um aðra styrki til sjóðsins.

Breytingar á starfsreglum sjóðsins

24. Stjórn áskilur sér rétt til breytinga á reglum þessum án fyrirvara.

Reglur þessar voru samþykktar á fundi stjórnar Starfsmenntasjóðsins 4. september 2013. Endurskoðaðar 1. nóvember 2017.

 • Var efni síðunnar hjálplegt?
 • Nei