Látið þið lífeyrissparnaðinn okkar vera!

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Stjórn Stéttarfélags Vesturlands samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum þann 27. nóvember 2012:


 


Stjórn Stéttarfélags Vesturlands styður eindregið ályktun miðstjórnar ASÍ frá 14. nóvember sl. þar sem skattlagningu á lífeyrisréttindi almenns launafólks er mótmælt. Félagið skorar á þá lífeyrissjóði sem félagsmenn þess eiga aðild að, að taka þátt í að skoða hvort forsendur eru fyrir því að fá þessari skattlagningu hnekkt fyrir dómstólum. Umrædd skattlagning lendir einungis á lífeyrissjóðum launafólks á almennum markaði. Ríksstjórnin, alþingismenn og opinberir starfsmenn í opinberum lífeyrissjóðum eru með réttindi sín tryggð og skeyta ekkert um hina. Ráðherrar og alþingismenn tala um almenna lífeyrissjóði eins og þeir séu óþrjótandi fjársjóður, sem hægt sé að ganga í þegar illa árar, í stað þess að líta á sjóðina sem ævisparnað almenns launafólks, sem sjóðstjórnirnar hafa lagalegar skyldur til að varðveita og  ávaxta. Þessum árásum verður að linna, því framganga af þessu tagi grefur undan tiltrú launafólks á lífeyriskerfið og getur lagt það í rúst, ef ekki verður breyting þar á. 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei