Matvöruverð breytist mikið milli ára

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Sú matvara sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á þann 12. ágúst sl. hefur bæði hækkað og lækkað í verði frá sambærilegri könnun sem gerð var í ágúst 2013. Miklar verðbreytingar eru í öllum vöruflokkum hjá öllum verslunum. Þannig hefur vinsæl matvara eins og MS súrmjólk hækkað um 3-9% og kíló af Dansukker strásykri, hefur hækkað í verði um 6-71% á meðan Merrild mellemristet 103 kaffi hefur lækkað um 15-21%.
Verð hefur oftast hækkað hjá Víði á tímabilinu á þeim vörum sem til voru í báðum könnununum og einnig hafa Nettó og Iceland oftar hækkað verð en lækkað. Hagkaup, Fjarðarkaup, Bónus, Nóatún og Krónan hafa oftar lækkað verð en hækkað en Samkaup-Úrval hefur lækkað og hækkað verð næstum jafn oft í frá því í ágúst í fyrra.


Töluverðar verðhækkanir á mjólkurvörum í öllum verslunum


Næstum allar vörurnar í vöruflokknum, ostur, viðbit og mjólkurvörur hafa hækkað í verði hjá öllum verslunum síðan í fyrra. Sem dæmi um mikla hækkun má nefna að Húsavíkurjógúrt m/bláberjum 500 ml. hefur hækkað um 23% úr 222 kr. í 272 kr. hjá Fjarðarkaupum, um 10% úr 208 kr. í 228 kr. hjá Iceland, um 9% úr 218 kr. í 238 kr. hjá Víði, um 5% úr 207 kr. í 217 kr. hjá Bónus og um 5% úr 208 kr. í 219 kr. hjá Nettó. Af öðrum vörum má nefna MS súrmjólk sem hefur hækkað um 9% hjá Fjarðarkaupum, um 7% hjá Víði, 6% hjá Nettó, 5% hjá Krónunni, Samkaupum-Úrval og Hagkaupum, um 4% hjá Bónus og 3% hjá Nóatúni.


 


Kaffi lækkar í verði


Dæmi um kaffi sem hefur lækkað í verði er Gevalia Original 500 gr. sem hefur lækkað í verði um 13% hjá Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum, um 10% hjá Nettó, 7% hjá Samkaupum-Úrval og Hagkaupum, 3% hjá Iceland en hækkað um 3 kr. hjá Víði. Einnig má nefna að Merrild kaffi hefur lækkað í verði hjá öllum verslunum um 15-21% og Maxwell House 500 gr. hefur lækkað um 5-14%. Aðeins kaffið frá Kaffitár Morgundögg 500 gr. hefur oftar hækkað í verði í verslunum en lækkað en hækkunin var 11% hjá Víði, 3% hjá Hagkaupum og Nettó, það hækkaði um 2 kr. hjá Krónunni en lækkaði í verði um 6% í Samkaupum-Úrvali, 2% hjá Fjarðarkaupum en verðið á Morgundögg er selt á sama verði hjá Bónus og í fyrra.


 


Sjá nánari niðurstöður í töflu.


 


Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðkannana verðlagseftirlits ASÍ þann 26.8.13 og 12.8.14. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara.


Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland Fjarðarkaupum, Samkaupum Úrval, Víði, Hagkaupum og Nóatúni.


Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu.
  

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei