Enn aukast álögur á sjúklinga

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands fyrir rannsóknir og sérfræðilæknisþjónustu hækkaði óvænt þann 7. júlí síðastliðinn. Hækkunin kemur í kjölfar mikilla hækkana á heilbrigðisþjónustu í upphafi þessa árs. Alþýðusambandið gagnrýnir hækkanirnar harðlega en þær eru langt umfram almennar verðlagshækkanir og þau fyrirheit sem stjórnvöld gáfu um aðhald í verðlagsmálum í upphafi árs. Vaxandi greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu leggst þungt á sjúklinga og tekjulága hópa sem hætta er á að hindri aðgengi að þjónustunni og auki misskiptingu. Þetta er verulegt áhyggjuefni. 


Komugjöld til sérfræðingahækkuðu að þessu sinni um tæplega 4% samkvæmt vísitölu neysluverðs og hefur sérfræðilæknisþjónusta þá hækkað um ríflega 23% frá því um áramót.   Sem dæmi má nefna að almennt komugjald sjúklings til sérfræðilæknis er nú kr. 5.400 auk 40% af umframkostnaði en var í upphafi árs 5.000 auk 40% af umframkostnaði. Öryrkjar og 70 ára og eldri greiða nú 1.950 kr. auk 13,33% af umframkostnaði við komur til sérfræðinga en greiddu áður kr. 1.800 auk 13,33% af umframkostnaði.  


Þá hækkuðu gjöld vegna rannsókna, röntgengreingar og beinþéttnimælinga um 9-12% nú í júlí og hafa þá hækkað um 20-25% frá því um áramót. Sem dæmi hækkuðu gjöld fyrir rannsóknir sem gerðar eru skv. beiðni um 9-12%. Almennt gjald fór úr kr. 2.100 í kr. 2.300 og fyrir öryrkja og 70 ára og eldri úr kr. 770 í kr. 840.


Árleg upphæð sem greiða þarf fyrir heilbrigðisþjónustu áður en gefið er út afsláttarkort á yfirstandandi ári hækkaði einnig um 4-5% nú í júlí og hefur þá hækkað um 8-9% frá því um áramót. Afsláttarkort til 18-66 ára einstaklinga er nú gefið út þegar greiddar hafa verið kr. 33.600 í lækniskostnað á árinu en var í upphafi árs kr. 31.100. Hjá öryrkjum og 70 ára og eldri nemur þessi upphæð nú 8.500 en var 8.100 og hjá börnum 10.200 samanborið við 9.800 í upphafi árs. 


Sjá nánari sundurliðun í meðfylgjandi töflu.


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei