Trúnaðarráð og trúnaðarmenn álykta

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundi trúnaðarráðs og trúnaðarmanna Stéttarfélags Vesturlands 20.01. 2015



 Trúnaðarráð Stéttarfélags Vesturlands lýsir ábyrgð á hendur stjórnvöldum vegna þeirrar stefnu sem kjarasamningar eru nú að taka. Almennt verkafólk var fyrir ári, tilbúið að stíga skref í átt til þess sem tíðkast við kjarasamningagerð á hinum norðurlöndunum. Ríkið og sveitarfélögin sáu ekki ástæðu til að leggja því máli lið í raun og hafa hækkað laun  sumra starfsmanna sinna um tugi prósenta. Nú síðast lækna um meira en 30 %. Almennt verkafólk getur ekki eitt axlað ábyrgð á svokölluðum stöðugleika og verður því að rísa upp og taka við þeim stríðshanska sem kastað hefur verið af stjórnvöldum.
 Trúnaðarráð Stéttarfélags Vesturlands telur rétt að minna á að stjórnendur Samtaka atvinnulífsins og margir félagsmenn þeirra eru ekki síður sekir um að fylgja ekki eigin stefnu um hóflegar launahækkanir, þegar kemur að stjórnendum fyrirtækja.  Þar getur launamunurinn orðið allt að fertugfaldur, frá almennum starfsmanni að forstjóra. Slíkar gjörðir stuðla ekki að friði.
 Trúnaðarráð Stéttarfélags Vesturlands telur að verkalýðshreyfingunni sé nauðugur einn kostur að hefja kjarabaráttu sem færir íslenskt samfélag áratugi aftur í tímann, með háum kröfugerðum og þeim  óróa á vinnumarkaði, sem þarf til að fylgja þeim eftir. 


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei