Félagssvæði stéttarfélaga – Hvalur og Hörður

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Félagssvæði stéttarfélaga – Hvalur – Hörður og Hvalfjarðarsveit!


Samkvæmt lögum nr. 80/1938 þurfa stéttarfélög að ná yfir heilt sveitarfélag. Þegar breytingar verða á stærð sveitarfélaga, t.d. við sameiningu þeirra  þá þurfa stéttarfélög oft að bregðast við og breyta lögum sínum og stækka félagssvæðin. Þetta getur þýtt að félagsvæði stéttarfélaga skarast. Þannig hefur það verið frá því að Verkalýðsfélag Akraness breytti lögum sínum árið 2012 eða 2014 og nær það félag nú yfir alla Hvalfjarðarsveit ásamt Akranesi. Stéttarfélag Vesturlands hefur félagssvæði frá Hvalfjarðarbotni, þ.e. Hvalfjarðarsveit, Skorradal, Borgarbyggð, Eyja og Miklahotshrepp ásamt Dalabyggð, mætir Verkalýðsfélagi Vestfirðinga á brúnni yfir Gilsfjörð.

Þegar tvö stéttarfélög skarast ber þeim að gera samstarfssamning samkvæmt lögum ASÍ. Um það leiti sem Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði var sett á fót, voru Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélagið Hörður í Hvalfirði í ágætu samstarfi við gerð samninga á Grundartangasvæðinu og mun félagssvæði VLFA þá hafa verið stækkað að Katarnesi. Síðan þetta var hefur margt gerst og meðal annars það að Verkalýðfélagið Hörður í Hvalfirði sameinaðist Verkalýðfélagi Borgarness og Val í Búðardal sem Stéttarfélag Vesturlands. Þetta var árið 2006, undirrituð kom til starfa hjá Stéttarfélagi Vesturlands í ársbyrjun 2008.


Sem formaður Stéttarfélags Vesturlands hef ég sagt bæði forsvarsmanni Hvals og starfsmönnum Hvals sem haft hafa samband við félagið að meðan ekki er gerður sérstakur samningur við annahvort félagið um störfin í hvalstöðinni, geta verkamenn þar valið milli félaganna, þ.e. bæði félögin eru aðilar að almennum samningum verkafólks við SA. Stéttarfélag Vesturlands gerði tilraun vorið 2009 til að gera samning við Hval hf vegna þessara starfa, en það skal játað að verkið var ekki klárað þ.e.a.s. illa gekk að koma bæði forsvarsmönnum Hvals og a.m.k. hluta starfsmanna í stöðinni inn í nútíma atvinnuhætti. Síðasti samningur Harðar og Hvals var gerður 1983 eftir því sem ég kemst næst. Stéttarfélag Vesturlands hefur ekki haft afskipti af deilum formanns VLFA og forsvarsmanns Hvals  að öðru leiti en því að forsvarsmanni Hvals hefur verið bent á að hann megi ekki samkvæmt lögum reyna að hafa áhrif á stéttarfélagsaðild starfsmanna, hvað þá meina þeim um að velja félag sem hefur gildan kjarasamning í viðkomandi starfsgrein og starfar á félagsvæðinu.


 


Fh. Stéttarfélags Vesturlands


Signý Jóhannesdóttir


 


 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei