Skrifað hefur verið undir kjarasamning LÍV við Samtök atvinnulífsins sem felur í sér nýja nálgun til bættra lífskjara. Áhersla á kjarabætur til þeirra sem hafa lægstu launin er rauði þráðurinn í samningnum en um það er almenn sátt í samfélaginu. Samið var um krónutöluhækkanir eins og lagt var upp með í upphafi samningaviðræðna en auk þess eru launahækkanir að hluta tengdar þróun hagvaxtar og er gert ráð fyrir árlegri endurskoðun taxtalauna í ljósi launaþróunar á almennum vinnumarkaði. Þá er vinnuvikan stytt, en það var eitt helsta áherslumál LÍV í samningaviðræðunum, og sveigjanleiki aukinn. Eitt meginmarkmið samningsins er að stuðla að vaxtalækkun sem eykur ráðstöfunartekjur heimilanna. Gildistími samningsins er frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022.
Í kjölfar undirritunarinnar kynnti ríkisstjórnin viðamikinn aðgerðarpakka til að styðja við nýgerða kjarasamninga LÍV og fjölda annarra stéttarfélaga en samningarnir ná til um eitt hundrað þúsund starfsmanna á almennum vinnumarkaði.
Launahækkanir tengdar hagvexti
Árleg launahækkun felur í sér eftirfarandi: fasta krónutöluhækkun, hækkun tengda hagvaxtarþróun og endurskoðun í ljósi þróunar launavísitölu á vinnumarkaði.
Samningsbundnar launahækkanir á krónutöluformi
Launahækkanir eru allar í krónum talið og mun láglaunafólk hækka hlutfallslega meira í launum en þeir tekjuhærri. Hækkun launataxta á samningstímanum er alls 90 þúsund krónur en almenn hækkun er 68 þúsund krónur. Öll laun hækka jafnt fyrsta árið en á árunum 2020 til 2022 hækka launataxtar meira í krónum talið en laun sem eru umfram taxta.
- 2019 = Öll laun hækka um kr. 17 þúsund á mánuði frá og með 1. apríl.
- 2020 = Taxtar hækka um kr. 24 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 18 þús. frá og með 1. apríl.
- 2021 = Taxtar hækka um kr. 24 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 15.750 frá og með 1. janúar.
- 2022 = Taxtar hækka um kr. 25 þúsund á mánuði en almenn hækkun er kr. 17.250 frá og með 1. janúar.
Landsframleiðsla ræður launaauka
Í samningnum er tenging við hagvaxtarstigið í landinu og hækka laun aukalega ef landsframleiðsla á mann eykst umfram tiltekin mörk. Þannig er launafólki tryggð hlutdeild í verðmætasköpuninni. Þessi launahækkun skilar sér að fullu til félagsmanna á taxtalaunum en 75% til þeirra sem taka laun umfram taxta og kemur til greiðslu í maí á hverju ári. Hagvaxtaaukinn er frá þrjú þúsund króna launahækkun á mánuði, ef hagvöxtur eykst um 1% eða meira, upp í þrettán þúsund krónur, ef hagvöxtur á mann eykst um 3% eða meira.
Dæmi:
Landsframleiðsla á mann eykst um 2%. Mánaðarlaun samkvæmt taxta hækka þá um 8 þúsund krónur á því ári, auk samningsbundinnar launahækkunar sem fjallað er um hér að framan. Á árinu 2020 væri þetta 32 þúsund króna hækkun samtals. Laun umfram taxta fá 75% af hagvaxtaraukanum, eða 6 þúsund krónur.
Sé miðað við 2% hagvöxt á mann allt samningstímabilið, nemur hækkun taxtalauna 114 þúsund krónum á öllu tímabilinu í stað 90 þúsund króna.
Launaþróunartrygging fyrir taxtalaun
Þriðji þáttur launahækkunar samkvæmt þessum kjarasamningi er launaþróunartrygging á taxtalaun sem greidd er út árlega og er markmiðið að tryggja að þeir félagsmenn sem taka laun samkvæmt töxtum fylgi almennri launaþróun, verði launaskrið á almennum vinnumarkaði. Launaþróunartryggingin er krónutöluhækkun sem bætist á kauptaxta 1. maí ár hvert.
Borin er saman launaþróun tiltekinna launataxta og launaþróun samkvæmt launavísitölu á milli desembermánaða ár hvert. Hækki launavísitalan meira en viðmiðunartaxtinn hækka allir kauptaxtar kjarasamninga um sömu krónutölu sem reiknast sem hlutfall umframhækkunarinnar af kauptaxta.
Orlofsauki á þessu ári
Orlofsuppbót hækkar árlega um þúsund krónur, er 50 þúsund krónur á þessu ári og 53 þúsund krónur á árinu 2022. Auk þess verður greiddur 26 þúsund króna orlofsuppbótarauki til allra fyrir 2. maí 2019. Orlofsuppbót árið 2019 verður því samtals 76 þúsund krónur.
Vinnutíminn styttur
Í samningnum er gert ráð fyrir styttri vinnuviku félagsmanna LÍV, frá 45 mínútum að lágmarki í allt að tvo tíma á viku, og auknum sveigjanleika. Markmiðið er að gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni. Samið verður um hvernig styttri vinnuvika verður útfærð á hverjum vinnustað fyrir sig, það getur verið allt frá því að stytta hvern vinnudag í að fjölga orlofsdögum.
Aðkoma ríkisins – aukning ráðstöfunartekna
Viðamiklar aðgerðir stjórnvalda á samningstímanum nema um 80 milljörðum króna og er einkum ætlað að styrkja stöðu ungs barnafólks og tekjulægri. Þær gera m.a. ráð fyrir mikilvægum skrefum í átt að afnámi verðtryggingarinnar og verða verðtryggð jafngreiðslulán ekki heimiluð til lengri tíma en 25 ára frá og með næstu áramótum. Þá munu ný verðtryggð lán miðast við vísitölu án húsnæðisliðar. Heimild til að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán verður framlengd í tvö ár og einnig verður heimilt að ráðstafa 3,5% lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa. Gerðar verða frekari breytingar á skattkerfinu sem fela í sér skattalækkun um alls tíu þúsund krónur, þegar þær hafa komið að fullu til framkvæmda. Það er ígildi tæplega 16 þúsund króna launahækkunar fyrir skatt.
Breytingar á barnabótakerfinu, hækkun bóta um 16% og hækkun skerðingarmarka í 325 þúsund krónur á mánuði, munu að auki skila tekjulægri foreldrum og heimilum umtalsverðum ávinningi.
Dæmi:
Foreldrar í sambúð með tvö börn, annað yngra en 7 ára, og 600 þúsund króna samanlagðar tekjur á mánuði fengju 14 þúsund króna hækkun barnabóta sem er ígildi 22 þúsund króna launahækkunar fyrir skatt.
Samningur skapar skilyrði fyrir vaxtalækkun
Öll skilyrði eru til staðar fyrir vaxtalækkun; lítil skuldsetning, hátt sparnaðarhlutfall og rúmur gjaldeyrisvaraforði. Nýr kjarasamningur skapar forsendur fyrir vaxtalækkun en lægri vextir til frambúðar er ein mesta kjarabót íslenskra heimila.
Dæmi:
Vaxtalækkun um 1% myndi hækka ráðstöfunartekjur hjóna með meðallaun um 20 þúsund krónur eða 3,2%. Greiðslubyrði 30 milljóna króna óverðtryggðs íbúðarláns hjónanna myndi minnka um 9,6 milljónir króna á greiðslutíma lánsins.