Breytingar á bótareglum sjúkrasjóðs

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Á 152. fundi stjórnar sjúkrasjóðs Stéttarfélags Vesturlands, þann 2. desember sl., voru samþykktar breytingar á bótareglum sjóðsins sem staðfestar voru á 79. fundi Trúnaðarráðs þann 11. desember síðastliðinn. Breytingar voru gerðar á bótaflokkum, styrk upphæðum sem og verklagsreglum úthlutunnar. Var ráðist í þessar breytingar til að einfalda og samþætta umsóknaferlið og minnka líkur á mistökum við afgreiðslu.

Allir félagsmenn öðlast nú réttindi til styrkja eftir að hafa greitt til félagsins í 6 mánuði af síðustu 24 en ekki í 12 mánuði líkt og áður var í sumum bótaflokkum, ekki eru greiddir styrkir vegna reikninga sem verða til á þessu 6 mánaða ávinnslutímabili. Nú er gerð sú krafa að skila þarf með umsóknum löggildum reikningum stílaða á nafn félagsmanns og íslenskri bankakvittun. Greiðslukvittanir, reikningar og vottorð mega ekki vera eldri en 12 mánaða, miðað við að réttindi liggi fyrir þá og vottorð vegna sjúkradagpeninga mega ekki vera eldri en tveggja mánaða. Ef viðeigandi gögn berast ekki innan þriggja mánaða eftir að umsókn er stofnuð verður henni eytt úr kerfinu og þarf þá að sækja aftur um eftir þann tíma.

Allar uppsafnanir styrkupphæða á milli ára verða ekki lengur í gildi. Aldrei verður greitt meira en 50% af reikningi nema annað sé tekið fram í þeim bótaflokki. Einnig var sú breyting gerð að nú endurnýjast styrkir á 12 mánaða tímabili en ekki um áramót líkt og áður var. Minnkar þetta álag á afgreiðslu styrkja í desember og getur félagsmaður nú sótt um styrk innan þeirra 12 mánaða frá því að reikningur er gefinn út.

Hér má nálgast verklagsreglur í heild og hér má nálgast nýjar bótareglur ásamt styrkupphæðum fyrir hvern bótaflokk. Munu þessar breytingar taka gildi frá og með 1. janúar 2025. Allar umsóknir fara í gegnum Mínar síður.

 

 

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei