Stytting á vinnutíma verslunar- og skrifstofufólks í Stéttarfélagi Vesturlands

Stéttarfélag Vesturlands Fréttir

Landssamband íslenskra verslunarmanna sem Stéttarfélag Vesturlands á aðild að,  gerði kjarasamning við  SA þann 15. apríl 2019.  Í þeim samningi var samið um styttingu vinnuvikunnar fyrir verslunar- og skrifstofufólk.

Þeir félagsmenn Stétt Vest sem vinna eftir þessum kjarasamningi  þurfa að semja við atvinnurekendur um útfærslu sem hentar hverjum vinnustað fyrir 1.desember 2019.

Samið var um 9 mínútna vinnutímastyttingu á dag alla daga vikunnar fyrir starfsmann í fullu starfi sem eru 45 mínútur á viku eða 3 klst. og 15 mínútur á mánuði, án skerðingar launa. Útfærsla styttingarinnar er í höndum hvers vinnustaðar fyrir sig og verður að liggja fyrir þann 1. desember nk. með hvaða hætti vinnustyttingin kemur til framkvæmdar. Vinnutímastytting tekur gildi 1. janúar 2020. Ef samkomulag næst ekki styttist vinnutími um 9 mínútur á dag miðað við fullt starf. Er þetta skref í átt að því að stuðla að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs, gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni og auka lífsgæði félagsmanna.

Frá 1. janúar 2020 breytast deilitölur í samræmi við vinnutímastyttingu

  • Frá 1. janúar 2020 þá styttist vinnuvikan hjá öllum verslunarmönnum um 45 mínútur
  • Vinnuvikan hjá afgreiðslufólki verður 38 klst og 45 mínútur og virkur vinnutími 35 klst og 50 mínútur
  • Vinnuvikan hjá skrifstofufólki verður 36 klst. og 45 mínútur og virkur vinnutími 35,5 klst
  • Á ári er styttingin um 35,25 klst. eða tæpir 5 dagar (4 dagar og 5,85 klst.)

9 mín Á DAG

45 mín Á VIKU

3:15 klst Á MÁNUÐ

 

 FYRSTU SKREF AÐ VEL HEPPNAÐRI INNLEIÐINGU Á STYTTINGU VINNUTÍMA

  • Markmið: Að stytta vinnuvikuna án breytinga á þjónustu.Minnka álag, draga úr starfsmannaveltu, fækka fjarvistum. Tryggja þarf við markmiðasetningu að allir sjái sér hag að verkefninu.
  • Mælikvarðar: Stjórnendur og starfsmenn velja í sameiningu mælikvarða verkefnisins. Sem dæmi um mælikvarða má nefna ánægju viðskiptavina, fjarvistir, yfirvinnustundir, upplifun starfsmanna á álagi, launakostnað, tekjur og afköst.
  • Rýnifundir: Unnið að því í starfshópum að finna leiðir til þess að skilgreina og mæta þjónustuþörf, skipuleggja vinnutíma sem mæta kröfum viðskiptavina og starfsmanna. Prófaðar eru nokkrar útfærslur af vinnuskipulagi í 8-12 vikur til reynslu og árangur mældur.
  • Kosningar: Hver þjónustueining kýs um sitt fyrirkomulag á vinnutíma að loknum reynslutíma.
  • Regluleg endurskoðun og umbætur: Öll verkefni, hvort sem er í starfi eða einkalífi, þarfnast reglulegrar endurskoðunar. Allt er breytingum háð.

 

 

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei