Stéttarfélag Vesturlands eins og nokkur önnur stéttarfélög starfsmanna í Hvalsstöðinni í Hvalfirði, höfðaði mál á hendur Hvali hf. vegna vanefnda Hvals á ráðningarsamningum starfsmanna og í einhverjum tilfellum fleiri brota á kjarasamningum. Dómur féll í Landsrétti í lok október sl. og nú munu þeir starfsmenn sem fóru í mál, eða fólu félögunum umboð til að höfða mál fyrir sína hönd fá greiðslu frá Hvali hf. í samræmi við dóminn.
Stéttarfélag Vesturlands höfðaði mál fyrir 24 einstaklinga. Þetta voru þeir sem gátu útvegað félaginu afrit af launaseðlum, ráðningarsamningum og undirrituðu umboð til félagsins. Reynt var að hafa samband við hátt í 90 manns vegna þessa haustið 2017. Um var að ræða einstaklinga sem höfðu greitt til félagsins og einnig í samráði við félög utan félagssvæðisins, félagsmenn s.s. Eflingar, Bárunnar, Einingar -Iðju og fleiri stéttarfélaga, sem ekki hafa starfssvæði í Hvalfjarðarsveit. Sumir sendu inn gögn en aðrir áttu þau ekki eða vildu ekki fara í mál. Einnig var nokkur hópur sem ekki tókst að ná í.
Það eru því þessir tilteknu einstaklinar sem fólu félaginu umboð með formlegum hætti sem munu fá greiðslu frá fyrirtækinu.
Rétt er að taka fram að uppgjörið miðast við upphæð sérstöku greiðslunnar á hverja vakt vegna 2015 og eins er greitt fyrir þann fjölda vikulegra frídaga vegna 2014 og 2015 sem starfsmenn fengu ekki. Horft er til þess hvort starfsmenn höfðu óskað eftir fríi eða vinna hafði fallið niður vegna brælu og þá greitt fyrir þá daga sem á vantaði. Í einu tilfelli var starfsmaður ekki við störf 2015 en fær þá leiðréttingu samkvæmt árinu 2014. Dráttarvextir reiknast frá desember 2017 eða í þrjú ár.
Farið er með greiðsluna eins og hver önnur laun þannig að greiða þarf öll opinber gjöld af henni og mótframlög launagreiðanda.