Þann 15.janúar var opnað fyrir umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna. Ráðherra velferðarmála veitir styrkina, sem veittir hafa verið ár hvert síðan 1991, en umsjón með styrkveitingum hefur ráðgjafi Vinnumálastofnunar á Sauðárkróki.
Konur sem hafa góðar viðskiptahugmyndir eða reka fyrirtæki og eru að þróa nýjar vörur eða þjónustu, geta sótt um styrki sem geta numið allt að 2 milljónum króna.
Fyrirtækið/verkefnið þarf að vera í eigu konu/kvenna amk 50% og þarf að vera nýnæmi/nýsköpun í hugmyndinni auk þess sem hún þarf að skapa atvinnu til frambúðar. Ekki er skilyrði að vera með starfandi fyrirtæki.
Hægt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar (kr.300.000), styrki til markaðssetningar (innanlands eða erlendis), vöruþróunar , hönnunar eða efniskostnaðar. Auk þess geta konur sem hafa nýlega stofnað fyrirtæki, en hafa ekki hafið rekstur, eða eru að stofna fyrirtæki, sótt um styrk til að koma fyrirtækinu í framkvæmd (launastyrkur) og getur sá styrkur numið allt að 2 milljónum króna. Með þeirri umsókn þarf að fylgja fullgerð viðskiptaáætlun og er skilyrði að fyrirtækið hafi ekki hafið rekstur.
Hægt er að sækja um styrk fyrir allt að 50% af kostnaði verkefnis.
Ekki er hægt að sækja um styrki vegna stofnkostnaðar, rekstrarkostnaðar eða framkvæmda.
Sótt er um rafrænt á heimasíðu verkefnisins www.atvinnumalkvenna.is og er umsóknarfrestur frá og með 15.janúar til og með 7.febrúar.
Nánari upplýsingar um reglur og umsóknir má finna á heimasíðunni og hjá Ásdísi Guðmundsdóttur í síma 582-4914.
Einnig má senda fyrirspurnir í netfangið atvinnumalkvenna@atvinnumalkvenna.is