Stéttarfélag Vesturlands, Félag iðn- og tæknigreina, VR, Rafiðnaðarsambandið og Verkalýðsfélag Akraness skrifuðu undir kjarasamning við Elkem Ísland ehf þann 19. apríl. Gildistími samningsins er þrjú ár og einn mánuður. Hækkun grunnlauna er afturvirk frá 1. janúar 2011 og samningurinn rennur út 31. janúar 2014. Grunntaxtar samningsins hækka um 5,5% þannig að lægsti taxti samningsins fer úr kr. 184.465 í kr. í kr. 194.611.
Auk þessa eru gerðar breytingar á bónusum. FSM – bónus sem var fastur í einu 1% er nú felldur niður og er hluti af grunnkaupshækkun (4,5% + 1% = 5,5%). Kísiljárnbónus getur nú orðið að hámarki 6%( 3,5% í eldri samningi) og Öryggis og umgengisbónus getur verið á bilinu 0 – 7,5%( var 0 – 5,0% í eldri samningi). Verði hlutdeild starfsmanna úr nýjum bónusum svipuð og áður, má áætla að launahækkun á fyrsta ári verði í kringum 9%, alltaf er þó vafasamt að fullyrða nákvæmlega um árangur í nýjum bónuskerfum. Þann 1. febrúar 2012 hækka laun um 3,3% og aftur um 3,0% þann 1. febrúar 2013. Rétt er að geta þess að ákveði samninganefndir ASÍ og SA að hafa samningsforsendur vegna launahækkunar 1. janúar 2013, munu þær samningsforsendur gilda í þessum samningi. Samningurinn var kynntur starfsmönnum á tveimur fundum á Akranesi þann 20. apríl. Hafi einhverjir félagsmenn Stéttarfélags Vesturlands ekki sótt þá fundi þá er þeim bent á að hafa samband við formann í síma 894-9804 til að fá frekari upplýsingar. Hægt verður að greiða atkvæði um samninginn nk. þriðjudag hjá aðaltrúnaðarmanni Guðmundi Sigurðsyni .